150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og tek undir með honum. Það verður spennandi að sjá þegar rafknúnar dráttarvélar koma hér á markað. En annað sem mig langaði að fá álit á hjá hv. þingmanni í tengslum við þetta er, eins og hefur komið fram í ræðum, að það hafa náttúrlega ekki allir efni á því að kaupa sér rafmagnsbifreið. Þær eru tiltölulega dýrar enn þá, því miður. En hafa menn t.d. íhugað að nú á að fara að endurgreiða virðisaukaskatt af bílaleigubílum sem eru rafmagnsbílar. Þarna er sértækri aðgerð beint að sérstökum hópi, sem eru þá fyrst og fremst ferðamenn sem leigja þessa bíla. En hvað með þá sem búa hér og eiga t.d. gamla bíla sem menga tiltölulega mikið? Er það eitthvað sem væri hægt að skoða, hvort styrkja ætti fólk til að taka einfaldlega slíkar bifreiðar úr umferð? Það þarf að skoða alla möguleika og gæta jafnræðis hvað það varðar og að vera með ívilnun hvað varðar bílaleigur vekur upp spurningar. Hvað með sendibifreiðar? Hvað með leigubifreiðar o.s.frv.? Er ekki rík nauðsyn á því að þar sé hvatt til þess að fara yfir í rafmagnsbíla þar sem þessar bifreiðar eru mikið notaðar? Það eru ýmsir kantar á þessu sem vert er að skoða þannig að ég væri ánægður ef hv. þingmaður gæti komið með smáinnlegg varðandi það að einblína ekki bara á einhvern ákveðinn hóp, eins og t.d. bílaleigurnar, heldur þá breiðari hóp og t.d. gamla bíla, svo að dæmi sé tekið.