150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir þessar skýringar og ég er afskaplega ánægður með að þær áætlanir sem komu fram í fjármálaáætlun skyldu ekki raungerast. Hann endurtekur hér það sem hann sagði áður í dag, að þetta eigi ekki að verða, og ég fagna því afskaplega. Það er gott ef við höfum lagt þarna hönd á plóg til að ríkisstjórnin hafi fallið frá þessum áætlunum vegna þess að það er mjög mikilvægt fyrir hjón og sambúðarfólk að geta nýtt persónuafslátt hvor annars og sérstaklega ef annar aðilinn er án atvinnu eða með mjög lágar tekjur. Það er mjög mikill fjöldi fólks sem nýtir sér einmitt þessa leið til þess að reka heimili og þau eru sannarlega tvö sem reka heimili og eðlilegt að fólk eigi að geta nýtt sér þetta. En ég vil endurtaka það að ég fagna þessu svari ráðherra og því að ríkisstjórnin skyldi snúa af þessari braut.