150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:53]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Eftir langt vaxtarskeið og efnahagslegan uppgang horfum við nú fram á örlítið breyttan veruleika. Jafnvel björtustu hagspár sýna að róðurinn fram undan getur orðið býsna erfiður, bæði heimilum og fyrirtækjum sem hafa keyrt áfram þennan vöxt. Þetta á við um ýmsar atvinnugreinar, t.d. ferðaþjónustu og byggingariðnaðinn. Fjölmargir óvissu- og áhættuþættir eru taldir upp í fjárlagafrumvarpi hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi er ekki vitað hvernig þróun ferðaþjónustunnar verður. Í öðru lagi er óljóst um áframhaldandi vöxt íbúðafjárfestinga. Það ríkir enn ákveðin óvissa á vinnumarkaði þar sem á enn þá eftir að semja við tugþúsundir opinberra starfsmanna og við vitum ekki hvernig gengi og atvinnuleysi mun þróast. Auk þess höfum við ekki hugmynd um hvernig heimsbúskapurinn muni arta sig og hvernig helstu viðskiptalöndum okkar mun reiða af. Þetta getur allt haft mikil áhrif á okkar efnahag líka. Það liggur þó alveg ljóst fyrir hvað ríkisstjórnin ætlar að gera fyrir allra ríkasta fólkið og stærstu fyrirtækin. Það á að lækka veiðigjöldin, afnema bankaskattinn, verja fjármagnseigendur fyrir verðbólgu og fjármagnstekjuskattur verður áfram sá lægsti á Norðurlöndunum.

Hv. þm. Oddný Harðardóttir fór ágætlega yfir áherslur Samfylkingarinnar varðandi þetta fjárlagafrumvarp og ég ætla því að einbeita mér að afmörkuðum þætti. Mig langar að tala sérstaklega um aðgerðir í þágu smæstu fyrirtækjanna sem eru hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi. Langflest fyrirtæki í landinu teljast til lítilla fyrirtækja eða örfyrirtækja en aðgerðir ríkisstjórna hafa miklu frekar tekið mið af stærstu fyrirtækjunum. Hér er kannski rétt að árétta að lítil fyrirtæki eru þau sem hafa 49 eða færri starfsmenn á meðan örfyrirtæki hafa níu eða færri. Þessi fyrirtæki eru auðvitað mjög fjölbreytt, bæði að stærð og gerð. Sum byrja með fáum starfsmönnum og tekst að stækka og eflast jafnt og þétt. Þetta á ekki síst við um nýsköpunarfyrirtæki sem oft byggjast fyrst og fremst á hugviti, eru núna í miðri hringiðu stafrænu tæknibyltingarinnar og hafa allan heiminn sem markað. Þessi fyrirtæki þurfa að verða stærri hluti af verðmætasköpun okkar og útflutningi ef okkur á að farnast vel í framtíðinni. Síðan eru það hin fyrirtækin sem ætla sér alls ekki að verða stór eða stækka, eru og vilja vera lítil en eru engu að síður gríðarlega mikilvæg fyrir okkar samfélag. Þetta eru oft þjónustufyrirtæki, stundum fjölskyldufyrirtæki, og megintilgangurinn er kannski bara að skapa sér og sínum og e.t.v. nokkrum öðrum lifibrauð. Þessi fyrirtæki eru hlutfallslega fleiri á höfuðborgarsvæðinu og eru því mjög mikilvæg á þessum þyngdarpunkti þar sem 70% landsmanna búa, en þau eru hins vegar alger lífsnauðsyn fyrir minni byggðir. Undir þetta fellur hin týpíska nærþjónusta, t.d. hárgreiðslustofa, pípulagningarfyrirtæki, verslun eða lítil hönnunarstofa, en einnig einstakir starfsmenn hjá fyrirtækjum, oft sprotafyrirtækjum, sem hafa höfuðstöðvar víðs fjarri byggðinni, jafnvel í útlöndum. Þessi fyrirtæki gera með öðrum orðum litlu bæina allt í kringum landið lífvænlegri, tryggja nauðsynlega þjónustu, fjölbreytni, en geta líka verið segull og aðdráttarafl fyrir ungt fólk sem leitar hingað og út í heim í nám þannig að það snúi til baka.

Hjá Evrópusambandinu notast menn við þumalputtareglu sem kallast, með leyfi forseta, „Think small first“ eða hugsum fyrst smátt. Þannig er hvatt til þess þegar reglur eru settar, gjöld ákvörðuð, skattar lagðir á eða þegar samin er löggjöf tengd fyrirtækjum í rekstri, að fyrst sé hugsað um smærri fyrirtæki og hvaða áhrif umhverfið hefur á þau áður en það er yfirfært á allt. Ég held að þetta sé hugsunarháttur sem við verðum að fara að temja okkur hérna. Lítil fyrirtæki eru drifkraftur einstaklingsframtaks og sköpunar og leiða oft til nýhugsunar. Þarna er oft fólkið sem kveikir fyrst á hugmyndunum. En þau eiga mjög erfitt og sérstaklega erfitt með að fóta sig í óstöðugu umhverfi og standa oft frammi fyrir erfiðleikum og hindrunum sem reynast risastórum fyrirtækjum ekki jafn þungbærar af ýmsum ástæðum. Þess vegna þurfum við að taka markviss skref til að bæta umhverfi örfyrirtækja og lítilla fyrirtækja, til að örva vöxt, sköpun og frumkvöðlastarf og ekki síst styðja við rannsóknir og þróun, sérstaklega núna þegar hagkerfi okkar er farið að kólna.

Einn helsti vaxtarsproti íslensks atvinnulífs er hugverkaiðnaðurinn sem margir hafa rætt um hérna en innan hans starfa fyrirtæki sem byggja sitt samkeppnishæfi fyrst og fremst á mannauðnum sem starfar þar. Þau byggja viðskiptalíkanið á nýsköpun, þróun, tækni, hönnun, sérstöðu og tengslum en lykilatriðið er í raun verðmætasköpun fyrirtækis sem byggir á þekkingarauðlindinni frekar en nýtingu náttúruauðlinda. Þau hafa umtalsverða kosti á mörgum sviðum fram yfir okkar gömlu, góðu atvinnuvegi, sem verða auðvitað að vera til staðar áfram. Þessi fyrirtæki hafa mikla vaxtarmöguleika — við eigum vel menntað fólk, þótt við verðum að gera betur. Þau krefjast oft minna fjármagns í upphafi. Launakostnaður á Íslandi er samkeppnishæfur í augnablikinu og fjarlægðir skipta minna máli en ella þegar um er að ræða að koma vöru á markað. Ísland hefur því mikla möguleika á þessu sviði og við þurfum að hlúa að þessu.

Það er hins vegar áhyggjuefni að fjöldi nýskráninga fyrirtækja sem tengd eru nýsköpun hefur minnkað frá árinu 2014. Þetta er öfugþróun sem verður að snúa við. Íslensk þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki hafa gagnrýnt þakið sem er á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar og fjöldi fyrirtækja hefur flutt starfsemi sína annað. Ísland er neðst á lista OECD yfir þau ríki sem beita endurgreiðsluaðferð til að styðja rannsóknar- og þróunarverkefni og jafnvel þreföldun hámarksins er kannski ekki nóg til að breyta þeirri mynd. Ég held að fullt afnám væri í rauninni réttasta svarið.

Þá er heldur ekki nóg að lækka tryggingagjaldið örlítið upp allan stigann, þótt það sé jákvætt skref. Ég tel að það þurfi að lækka tryggingagjald enn meira á fyrirtæki sem verða fyrir mest íþyngjandi áhrifum, þ.e. þau fyrirtæki sem hafa hlutfallslega háan launakostnað. Þetta eru oft lítil fyrirtæki. Það er sérstaklega mikilvægt áður en fyrirtækin fara að berjast í bökkum og niðursveifla verður erfið. Ég geri mér grein fyrir að slík lækkun hefði í för með sér talsvert tekjutap fyrir ríkissjóð og það verður að tryggja að nægt fjármagn renni í Atvinnuleysistryggingasjóð og Fæðingarorlofssjóð þrátt fyrir slíka lækkun. Aftur á móti gæti slík aðgerð komið í veg fyrir uppsagnir og jafnvel gjaldþrot fyrirtækja í mikilvægum greinum þar sem launakostnaður vegur þungt og gæti bjargað mörgum slíkum fyrirtækjum í dreifðari byggðum landsins. Ein leið til að fjármagna þetta er t.d. að fresta fyrirhugaðri lækkun bankaskatts, sem er u.þ.b. sama tala og þetta myndi kosta.

Á Íslandi er framlag örfyrirtækja til vergrar landsframleiðslu óvenjuhátt í samanburði við Evrópusambandsríkin. Flest fyrirtæki hér teljast reyndar til örfyrirtækja þegar þau eru stofnuð. En við þurfum að skapa þeim vaxtarskilyrði til að þau geti stækkað, ef fólk hefur yfir höfuð áhuga á því. Það er ekkert ósvipað og að gefa börnunum sínum lýsi og hollan mat þegar þau eru ung.

Rétt í lokin, af því að ég hef ekki nógan tíma til að klára ræðuna, þá er reglugerðarumhverfi hér óþarflega flókið og lítið um ívilnanir, sérstaklega fyrir smærri einingar. Reglugerðir eru auðvitað gríðarlega mikilvægar til að skapa festu, jafnræði og gagnsæi, ásamt félagslegu aðhaldi, en ef þær eiga að skila tilætluðum árangri verður að hafa þær skýrar og einfaldar. Ég hef sjálfur rekið hönnunarfyrirtæki í byggingariðnaði í 15 ár og ég þekki afar vel hvað er erfitt að halda slíku á floti þegar eru miklar sveiflur upp og niður. Gengi krónunnar hefur t.d. alveg svakalega vond áhrif á slík fyrirtæki en ég býst ekki við að ríkisstjórnin hafi hugsað sér að skipta um mynt.

Ég verð að koma hingað aftur seinna og klára þessa ræðu en er tilbúinn í andsvör ef einhver eru.