150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:31]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek heils hugar undir með honum þegar hann vekur athygli á takmarkaðri hækkun krónutölugjalda og að hún fylgi ekki verðlagi. Það er í raun skattalækkun ef við reiknum það til enda. En það sem vakti athygli mína í ræðu hans og ég vildi fá að eiga við hann orðastað aðeins meira um er rekstur hjúkrunarheimila. Þetta hefur verið talsvert rætt á vettvangi hv. fjárlaganefndar á undanförnum árum og við höfum tekið nokkrum sinnum utan um það mál en í afgreiðslu og nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar í vor ræddum við sérstaklega um hjúkrunarheimilin. Ég ætla þá að varpa því til hv. þm. Ólafs Gunnarssonar að ræða hvaða leiðir við eigum mögulegar. Ég held að með ákveðnum hætti geti hjúkrunarheimilauppbygging ein og sér eins og við höfum hugsað hana hingað til ekki verið lausnin heldur þurfum við líka að leita annarra leiða.

Það er annar þáttur sem ég vil líka draga fram. Það er rekstrarform eða flókið eignarhald, rekstrarform og ábyrgð á rekstrinum, sem er nokkuð sérstakt hversu flókin er. Í mörgum tilfellum lendir ábyrgðin á rekstrinum á sveitarfélögunum. Ég skal draga inn í umræðuna eitt lítið dæmi sem á sér margar hliðstæður, ábyrgð sveitarfélagsins Dalabyggðar á rekstri hjúkrunarheimilisins Silfurtúns. Fyrir lítið sveitarfélag með lágar meðaltekjur á svæðinu er þetta mjög þungur baggi. Við þurfum að ræða meira, nákvæmar og ítarlegar í þessum sal hvernig við ætlum að koma rekstrinum fyrir þannig að það séu ekki aðeins aukin fjárútgjöld (Forseti hringir.) heldur aðrar leiðir sem við getum mögulega fundið og bið ég hv. þingmann að hugleiða það með okkur.