150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:33]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hvað höfum við mikinn tíma? Við hv. þm. Haraldur Benediktsson gætum líklega hjalað megnið af deginum og inn í nóttina án þess að komast endilega að niðurstöðu. En það er rétt sem þingmaðurinn kemur inn á, að sumu leyti er sérkennilegt hvernig fyrirkomulag rekstrar hjúkrunarheimila á Íslandi er, hvað það er óskaplega margvíslegt. Það er allt frá því að vera í hreinum og klárum einkarekstri yfir í að vera í hreinum og klárum ríkisrekstri. Þarna á milli eru síðan frjáls félagasamtök, sveitarfélög, stundum stofnanir ríkisins að hluta, stofnanir sveitarfélaganna að hluta o.s.frv. Þetta er sannarlega flókið.

Eins og þingmaðurinn veit hef ég eytt drjúgum hluta af starfsævi minni í að vinna við slíkar stofnanir og hef a.m.k. fengið innsýn í það hvernig væri hægt að vinna málin. Það er bagalegt, eins og þingmaðurinn kom inn á, að það skuli ekki alltaf vera á hreinu hvar rekstrarábyrgð stofnananna liggur og að jafnvel lítil sveitarfélög þurfi stundum að taka slakann af rekstri hjúkrunarheimilis þegar, eins og þingmenn vita, eitt rými kostar kannski 14–15 millj. kr. í rekstri á ári. Þá er mjög fljótt að verða mikill halli ef skekkjan er nokkur.

Ég er ekki með patentlausn á því en þingmaðurinn kom inn á að við þyrftum að fara að finna aðrar leiðir. Þar er ég þingmanninum algerlega sammála. Við munum sprengja ríkissjóð mjög hratt og örugglega ef við höldum áfram í því fyrirkomulagi sem við erum í núna, (Forseti hringir.) að byggja sífellt fleiri og fleiri hjúkrunarheimili til að mæta vaxandi fjölda eldra fólks. Við þurfum að finna aðrar lausnir, þar með talið auka þjónustu í heimahúsum á vegum sveitarfélaga og ríkis.