150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[09:45]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Fyrst aðeins um uppsafnaða þörf. Í opinberri fjárfestingu var svo sannarlega uppsöfnuð þörf því að hún hafði verið í sögulegu lágmarki í mörg ár áður en núverandi ríkisstjórn tók til starfa. Mér finnst kúnstugt ef hv. þingmenn kannast ekki við þær kröfur sem hafa verið uppi hjá almenningi í þessu landi um að efnahagsbatinn skilaði sér betur til almennings. Mér finnst ekki trúverðugur málflutningur hjá hv. þingmanni að ræða um þessi mál í því samhengi að verið sé að stækka báknið. Jafnréttismálin voru ekki hjá forsætisráðuneytinu heldur í samstarfi forsætisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis og þeir starfsmenn sem nú hafa flust yfir til forsætisráðuneytis voru áður hjá félagsmálaráðuneyti. Ég man ekki hvort þeir voru fimm eða sex talsins og þar af tveir með tímabundna ráðningu þannig að þeim mun fækka á þessu ári.

Jafnréttismálin eru málaflokkur sem ég legg mikla áherslu á að lyfta og ég er viss um að hv. þingmaður er mér sammála um það því að þau eiga að vera gegnumgangandi í öllu starfi allra ráðherra. Þar skiptir máli að forsætisráðuneytið hafi ákveðnu miðlægu hlutverki að gegna.

Ég hef lagt sérstaka áherslu á að styrkja formennsku forsætisráðherra í Vísinda- og tækniráði sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt mál til framtíðar litið. Í forsætisráðuneytinu hefur skort á sérþekkingu og ég hef því lagt áherslu á að styrkja þá sérþekkingu sem og hvað varðar stefnumótunarhlutverk ráðuneytisins. En stóri pósturinn í útgjaldaaukningu forsætisráðuneytisins er auðvitað viðbyggingin sem ég veit að hv. þingmaður er lítt hrifinn af. Ég vil líka nefna að laun allra aðstoðarmanna eru gjaldfærð á forsætisráðuneytið, ekki bara aðstoðarmanna forsætisráðherra heldur allra aðstoðarmanna, svo að staðreyndum sé haldið til haga. Þingsályktun um hana var samþykkt í október 2016 og með þessari viðbyggingu og þeim faglegu vinnubrögðum sem þar hefur verið lögð áhersla á fylgir forsætisráðuneytið fyrst og fremst eftir vilja Alþingis eins og það á að gera.