150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:37]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þá yfirferð sem hún veitti um málaflokkinn sem auðvitað er afar mikilvægur. Ferðaþjónustan er orðin burðarás í íslensku atvinnu- og efnahagslífi, stórfelld uppspretta tekna til hins fjölmenna hóps sem starfar við greinina og er þar fyrir utan mikil uppspretta gjaldeyristekna í þjóðarbúið.

Herra forseti. Ég vildi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvað býr að baki þeim áformum sem lýst er í fjárlagafrumvarpinu um gjaldtöku á ferðamenn. Þar er að finna töluna 2,5 milljarða kr. Það sem ég vil inna hæstv. ráðherra eftir er hvaða áform eru uppi varðandi útfærslu á þeirri gjaldtöku. Er gert ráð fyrir að hún fari einkanlega fram á vettvangi flugsamgangna? Kemur innanlandsflugið þar að? Er verið að tala um brottfarar- eða komugjöld? Hvaða tímasetningar eru áformaðar í því? Hvernig er upphæðin 2,5 milljarðar fengin ef við erum að tala um gjald á hvern farmiða? Hvaða fjárhæðir sér hæstv. ráðherra fyrir sér í þeim efnum?