150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:07]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Það er til að mynda mál á þingmálaskrá, þrátt fyrir að það sé í vor, enda mikil vinna fram undan, sem snýr að því að koma á fót nýjum sjóði sem mun breyta verulega, trúi ég, umhverfi frumkvöðla hér á landi. Þar getur ríkið, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, komið með framlag á móti einkafjármagni annars staðar þegar fjárfest er í hugmynd á fyrri stigum. Þar lítum við bara til þess: Hvar eru hlutirnir að virka? Hvernig gera þeir það? Við erum að reyna að yfirfæra það yfir á Ísland. Það er ein tillaga sem er á þingmálaskrá. Ef við hefðum haft aðeins meiri tíma hefði ég viljað sjá boð um frekari breytingar með frumvörpum í ráðuneyti mínu og sömuleiðis í fjármálaráðuneytinu. Það er svo sem hægt að uppfæra þingmálaskrá um jólin og við munum vinna hratt og gera það sem við getum til að vinna okkur í haginn. Hvort það verða einhverjar breytingar á þingmálaskrá um áramót verður að koma í ljós, en þetta kallar á lagabreytingar og einnig á aðrar breytingar sem birtast ekki endilega í lagabreytingum.

Ég vildi auðvitað að við værum með nýsköpunarstefnu fyrir framan okkur og værum að ræða hana, og það kemur að því, vegna þess að í henni eru lagðar til breytingar, hvort sem þær eru skattalegar eða varða stofnanaumhverfi eða erlenda sérfræðinga og hvernig hægt er að auðvelda það að þeir komi til landsins, að það sé ekki jafn þungt í vöfum og það er í dag. Þetta eru breytingar sem heyra undir önnur ráðuneyti en þarna eru boðaðar töluverðar breytingar.

Ég hef áhuga á því að reyna að koma upp einhvers konar heimasíðu þar sem hægt er að setja allar þessar tillögur inn á. Þá geta allir fylgst með hvernig gengur, á hverju strandar o.s.frv., því að þetta er auðvitað viðvarandi verkefni. Það er ekki þannig að við gefum út skýrslu og getum hakað við það, gefum út skýrslu og förum í einhverjar breytingar með frumvarpi og hökum svo við. (Forseti hringir.) Þetta er verkefni sem er viðvarandi næstu áratugi og það er lifandi. Við þurfum að hafa ákveðna auðmýkt gagnvart því þrátt fyrir að við þurfum að halda vel á spöðunum.