150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:59]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er alls ekki að gera lítið úr því starfi sem margir lögreglumenn vinna við skrifborð og geri mér grein fyrir því að það er mjög nauðsynlegt. En það er engu að síður mjög brýnt að fjölga lögreglumönnum á vettvangi, jafnvel þó að ekki sé nein sérstök vá fyrir dyrum, þannig að lögreglan sé sýnileg, ég tala nú ekki um í ýmsum byggðarlögum þar sem þarf að sækja löggæslu um langan veg.

Seinni spurning mín lýtur að Útlendingastofnun og fjármögnun hennar. Hún hefur náð mjög illa að anna því sem henni er ætlað að gera með þeim afleiðingum að fólk hefur þurft að bíða mjög lengi eftir úrskurði og hefur á meðan búið við óviðunandi aðstæður. Til allrar hamingju og vonandi stendur nú til að bæta úr því með auknum fjárframlögum. En mig langar samt að heyra hæstv. ráðherra tala aðeins um sína sýn á hlutverk og starfsemi þessarar stofnunar og hvort þar megi kannski sitthvað betur fara við afgreiðslu umsókna og það hvernig ákvörðunum og úrskurðum er framfylgt.