150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því líkt og aðrir að árna hæstv. ráðherra velfarnaðar í nýju embætti. Við þekkjum það af reynslunni, hafandi setið saman í allsherjar- og menntamálanefnd sem nýliðar fyrir nokkrum árum, að þetta eru mikilvægir málaflokkar. Þó að okkur hafi oftar en ekki greint á um málin og sjaldan, held ég, verið sammála þá náðum við að vinna ágætlega saman í nefndinni og ég reikna með að það haldi áfram þótt hlutverk hafi breyst.

Mig langar að nefna nokkur atriði úr málasviðum ráðherrans. Hið fyrsta er mansal. Allt of lengi bjuggum við við þær aðstæður að það var ekki í gildi aðgerðaáætlun gegn mansali. Nú í vor leit loksins dagsins ljós áhersluskjal stjórnvalda um þær aðgerðir og þetta tengist síðan lífskjarasamningum við aðila vinnumarkaðarins sem leggja mikla áherslu á baráttuna gegn mansali og félagslegu undirboði. Það er eitt atriði sem kemur fram í þeirri áætlun sem mér finnst mikilvægt að minna á, sem er sérstök samhæfingarmiðstöð fyrir mansalsmál til þess að samræma verklag og vinnubrögð þegar grunur leikur á mansali. Þetta er eitthvað sem hefur sárlega vantað í íslenska stjórnsýslu. Í áætluninni er talað um að unnið sé að kostnaðarmati fyrir þennan lið en í fjárlagafrumvarpinu er ekki minnst á þann kostnað. Mig langar að athuga hjá ráðherranum hvort kostnaðarmatið sé til staðar og hvort samhæfingarmiðstöðin sé fjármögnuð svo að við náum að koma því mikilvæga batteríi á koppinn á komandi ári líkt og stefnt var að í vor.