150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þetta er mitt hjartans mál. Þess er skemmst að minnast að í gær fór fram hjá SÁÁ fundur þar sem var verið að tala um þá gríðarlegu sprengingu sem hefur orðið í kókaíni og sterkum lyfjum á markaðnum. Það er vímuefnavá í gangi í rauninni.

Svo ég fari inn á það sem hæstv. ráðherra nefndi, og ég þakka henni sérstaklega fyrir að taka það fram og taka af allan vafa, en staðreyndin er sú að hún hefur ákveðið að taka 50 milljónirnar og setja þær í málaflokkinn sem hún var sjálf að taka út fyrir sviga og var aldrei ætlunin að við færum að setja í. Ég vil spyrja ráðherrann aftur um það: Skildi ráðherra það kannski ein þannig, a.m.k. miðað við skilning okkar flestra fjárlaganefndarmanna og annarra, að við hefðum verið að kalla eftir þessari auknu fjárheimild til að reyna að draga úr biðlistanum inn á Vog? Hann hefur aldrei verið lengri og í ágúst sl., rétt fyrir verslunarmannahelgi, þegar fársjúkir einstaklingar voru búnir að pakka niður í tösku þurfti að hringja í þá til að segja: Því miður getið þið ekki komið inn á morgun. Við verðum að fresta því.

Ég er að segja að það að taka 50 milljónirnar núna, sem ég hefði kannski ímyndað mér að gæti a.m.k. fengið að þróast í þá átt að fara beint inn í það að þeir gætu ákveðið það sjálfir hvernig þeir gætu komið til móts við biðlistana á Vog og aukið við rými sitt og rúm þar, en í staðinn tekst hæstv. ráðherra einhvern veginn afturvirkt að bjóða okkur upp á það að þær 50 milljónir fari í það sem hún var sjálf búin að ákveða að yrði alls ekki.

Er ekki til í stöðunni miðað við aukna þörf, miðað við sprengingu, miðað við þá vá, að við köllum einfaldlega eftir auknu fjármagni og styðjum við SÁÁ? Í fíkniefnavá, hæstv. ráðherra, þarf að efla SÁÁ.