150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þær spurningar sem hún beindi til mín. Varðandi reiknilíkan háskólanna erum við núna að vinna að grænbók þar sem við förum yfir alla þessa fjármögnun. Eitt af því sem hefur verið leiðandi, sem er rétt hjá hv. þingmanni, er nemendafjöldi og sér í lagi brautskráning nemenda. Við erum að vinna að því núna að taka upp nýtt reiknilíkan sem hefur fleiri breytur þar sem við munum leggja frekari áherslu á gæði. Þetta verður mjög spennandi vinna og við erum að leggja lokahönd á þessa grænbók og erum í miklum alþjóðlegum samanburði. Í Finnlandi til að mynda, sem við lítum oft til, eru stjórnvöld með ákveðnar áherslur. Ef ákveðið vinnuafl vantar inn á markaðinn er fjármunum beint í þá átt. Þetta eru Bretar líka að gera. Eitt dæmi þess efnis eru þær aðgerðir sem við erum að fara í varðandi kennaranámið. Þar eyrnamerkjum við sérstaklega fjármuni til Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.

Varðandi spurninguna sem snýr að fjölmiðlum og ríkisstyrkjum til fjölmiðla vil ég taka fram að við erum að vinna að því að umhverfi fjölmiðla verði líkast því sem gerist á Norðurlöndum. Þar er verið að styðja við fjölmiðla með nákvæmlega sama hætti og verður í því frumvarpi sem ég er að boða, með því að styðja við ritstjórnir einkarekinna fjölmiðla. Ríkisútvörp þar eru til að mynda ekki á auglýsingamarkaði, það er fjármagnað öðruvísi. Í þriðja lagi eru ýmsar skattaívilnanir í boði. Þetta er allt gert til að fjölmiðlar séu eins sjálfstæðir og þeir mögulega geta verið.