150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að beina sjónum okkar frekar að fjölmiðlum og hversu mikilvægt er að rekstrarumhverfi þeirra sé öflugt. Eitt af því sem við höfum séð á síðustu misserum er að við erum stödd á mjög sérstökum tímum. Við erum stödd í svokallaðri upplýsinga-, samskipta- og tæknibyltingu sem veldur því að öll fjölmiðlun og það hvernig fjölmiðlar afla sér tekna er gjörbreytt. Mikið af þessu fer í gegnum alþjóðlegar efnisveitur. Við sjáum til að mynda ef við berum okkur saman við Danmörku að nánast helmingur allra auglýsingatekna hefur farið úr danskri lögsögu, ef ég má orða það þannig.

Viðfangsefnið er að tryggja að fjölmiðlar á Íslandi séu eins sjálfstæðir og hugsast getur. Mín áform hvað það varðar er í fyrsta lagi það frumvarp sem ég hef boðað sem byggir að sjálfsögðu á því að styrkir séu veittir til ritstjórna, faglegra ritstjórna. Þetta eru gagnsæjar reglur og ég vil minna hv. þingmann á að þetta frumvarp fór í samráðsgátt á síðasta vorþingi þannig að öll áform, öll uppbygging og hvernig frumvarpið er hugsað og hvers vegna við erum að hefja þessa vegferð kemur þar fram. Ég upplýsi þingmanninn um að það megi nálgast frumvarpið nú þegar í samráðsgáttinni.

Varðandi auglýsingar og stöðu RÚV á auglýsingamarkaði hef ég lýst því yfir að ég telji að það myndi efla Ríkisútvarpið ef það væri algerlega sjálfstætt frá auglýsingamarkaði með nákvæmlega sama hætti og við sjáum annars staðar á Norðurlöndunum. Ég tel að við eigum að stefna þangað til þess að tekjustofn einkareknu fjölmiðlanna verði betri.

Að lokum vil ég nefna að við þurfum líka að ná utan um alþjóðlegar efnisveitur í alþjóðlegu samstarfi. Þetta þrennt þarf að koma til.