150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir innlegg hennar í sambandi við fjárlögin. Ég fagna því sem ég heyrði áðan, að það væri verið að auka um 220 milljónir til kennaramenntunar og að karlmönnum fjölgi í þeirri stétt. Það sem ég hef áhyggjur af og hef hvergi séð í þessu frumvarpi hjá henni er viðleitni til að fjölga hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Það eru ekki settar 100 milljónir í það. Ég tel að þar sé einn mesti vandinn í dag. Við þurfum að horfa á þetta út frá því að við erum að mennta hjúkrunarfræðinga en fáum þá ekki til að vinna við hjúkrun. Þarna er stór vandi sem við þurfum að skilgreina og mér er spurn: Hvernig getum við aukið áhuga fleiri á að sækja sér hjúkrunarmenntun og séð til þess að þeir vinni í stéttinni? Er hægt að gera hvatakerfi þannig að hægt sé að tryggja að þeir vinni kannski í tvö, þrjú ár eftir námið með því að tryggja að þeir sem mennta sig fái viðeigandi laun? Sennilega er þetta nefnilega launatengt líka. Einhvern veginn verðum við að taka á þessum vanda vegna þess að við getum ekki opnað hjúkrunarheimili án hjúkrunarfræðinga. Þetta virðist ekki bara vera vandamál okkar heldur viðvarandi á Norðurlöndunum líka þannig að ef við kæmum með góða lausn á þessu máli held ég að önnur Norðurlönd myndu meira að segja fara þá leið líka.

Hvaða sýn hefur hún á þessi mál?