150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:19]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Málefnasviðin eru þrjú sem heyra til umhverfis- og auðlindaráðherra að öllu eða einhverju leyti. Starfsemi málefnasviðs 17, umhverfismál, er þar langumfangsmest. Þá tilheyrir starfsemi Landmælinga Íslands á málefnasviði 6 ráðuneytinu sem og verkefni Skipulagssjóðs á málefnasviði 8. Í því fjárlagafrumvarpi sem er nú til umræðu eru heildargjöld til málefnasviðs 17, umhverfismála, áætluð um 20,5 milljarðar kr. og aukast um rúman 1 milljarð kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2020. Þetta samsvarar um 5,5% raunaukningu. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum sem áætlaðar eru um 400 millj. kr. nemur hækkunin tæpum 1,5 milljörðum kr., þ.e. 7,6%. Gert er ráð fyrir niðurfellingu tímabundinna framlaga til málefnasviðsins sem nema um 241 millj. kr. Vegur þar þyngst niðurfelling tímabundins framlags til fráveitumála við Mývatn í tengslum við verndun vatnsins. Gerðar verða aðhaldsráðstafanir til að lækka útgjöld á málefnasviðinu um 117 millj. kr. Bundin útgjöld nema alls 320 millj. kr. en þar munar mest um breytingar á sértekjum stofnana, aukin framlög til Úrvinnslusjóðs og Endurvinnslunnar vegna breytinga á umsýslu-, skila- og úrvinnslugjaldi frá fyrra ári.

Hæstv. forseti. Gert er ráð fyrir að útgjaldasvigrúm innan ramma málefnasviðsins aukist um tæpan 1,1 milljarð kr. og er því líkt og fyrr fyrst og fremst veitt í ný og aukin verkefni vegna loftslagsmála, til styrkingar innviða á náttúruverndarsvæðum, til aukinnar landvörslu og til verkefna er lúta að innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Þessi megináhersla endurspeglar þær áskoranir í loftslagsmálum, náttúruvernd og úrgangsmálum sem við stöndum frammi fyrir. Þannig verður 455 millj. kr. aukning til loftslagstengdra mála. Þar af eru um 200 milljónir til kolefnisbindingarverkefna, rúmar 200 milljónir til sértækra aðgerða til að draga úr losun og til hækkunar á framlagi í loftslagssjóð og um 60 milljónir til ýmissa loftslagstengdra verkefna.

Jafnframt verður 525 millj. kr. aukning til náttúruverndar og ber þar hæst rúmar 205 millj. kr. til uppbyggingar innviða og 270 millj. kr. til aukinnar landvörslu. Enn fremur er gert ráð fyrir um 100 millj. kr. í nýju framlagi til mála er lúta að innleiðingu aðgerða á grundvelli hringrásarhagkerfisins.

Hæstv. forseti. Líkt og fyrr eru áherslur innan málefnasviðsins þær sömu, þ.e. lögð verður áhersla á loftslagsmál, náttúruvernd, úrgangsmál sem og aukna skilvirkni í stjórnsýslu. Á sviði loftslagsmála verður áfram unnið í aðgerðum er miða að því að uppfylla Parísarsamkomulagið og markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040. Meðal helstu aðgerða þar má nefna að stefnt er að því að gefa út endurskoðaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum á þessu ári þar sem kynntar verða nýjar aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að draga úr losun gróðarhúsalofttegunda, samdrátt í losun frá landi og aukna kolefnisbindingu. Unnið verður að vegvísi um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040 og veittir verða styrkir úr nýstofnuðum loftslagssjóði til að stuðla að auknum rannsóknum og nýsköpun á sviði loftslagsmála.

Á undanförnum árum hefur verið lögð aukin áhersla á náttúruvernd og þá einkum í tengslum við mikla fjölgun ferðamanna. Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, svokölluð innviðaáætlun, spilar þar lykilhlutverk. Vil ég meina að tekist hafi að snúa vörn í sókn í þessum málum. Meðal helstu aðgerða hér má nefna að áfram verður unnið að sérstöku átaki í friðlýsingum og að stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Unnið verður að því að koma á reglubundnu mati á ástandi skilgreindra áfangastaða innan náttúruverndarsvæða sem forsendu fjármögnunar uppbyggingar og unnið verður að frekari eflingu landvörslu, m.a. á heilsársgrundvelli.

Úrgangsmyndun og meðferð úrgangs sem oft er vísað til sem hringrásarhagkerfisins verður æ veigameiri þáttur með tilliti til loftslagsmála og náttúruverndar og miklar áskoranir eru fram undan á þeim sviðum. Markmiðið með innleiðingu hringrásarhagkerfisins er að draga úr sóun, auka endurvinnslu og endurnýtingu og halda verðmætum eins lengi og hægt er í umferð. Þetta verkefni hef ég sett á oddinn á komandi ári og fagna því að nú er í fyrsta sinn verið að veita fjármuni til þess.

Hvað varðar aukna skilvirkni stjórnsýslunnar hefur ýmislegt áunnist í gegnum tíðina og má þar nefna innleiðingu ýmiss konar skráningarskyldu í stað starfsleyfaútgáfu og eflingu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála til að standast kröfur um málsmeðferð og tímalengd kærumála.

Hæstv. forseti. Það er af mörgu að taka í umhverfismálum og því brýnt að málaflokkurinn njóti þeirra fjármuna sem til þarf svo vinna megi að þeim verkefnum sem á okkur kalla. Loftslagsmálin eru mál málanna og brýnt að við nálgumst þau af festu svo við náum að snúa óheillaþróun við. Á það er kallað. Aldrei hefur meira fjármagn verið veitt til umhverfismála enda tími til kominn. Við erum með þessu fjárlagafrumvarpi (Forseti hringir.) að stíga stór skref í þá átt að geta tekist betur á við áskoranir fram undan, bæði í loftslagsmálum og náttúruvernd.