150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:32]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Mikið er rætt og ritað um umhverfis- og loftslagsmál, enda er það ekki að undra. Við fylgjumst iðulega með því í fjölmiðlum hvernig skógareldar geisa, bæði í regnskógum á Amazon-svæðinu og á norðurslóðum. Stormar geisa sömuleiðis og þurrkar sem eyða bæði gróðri og hafa áhrif á fólk og valda jafnvel manntjóni. Þetta snertir almenning. Almenningur bregst við, sérstaklega unga fólkið, um allan heim sem krefst þess að eitthvað verði gert áþreifanlegt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í meira mæli en við tölum um. Við erum nefnilega komin fram að brúninni og megum engan tíma missa.

Í þessum mánuði verður leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna í New York um loftslagsbreytingar og miklu skiptir að rödd Íslands verði þar afgerandi, afdráttarlaus og að við tölum skýrt og að við skynjum að alþjóðasamfélagið standi frammi fyrir neyðarástandi. Rödd okkar getur verið sterk með norrænu þjóðunum og fleirum. Þetta er þýðingarmikill fundur því að nú verða þjóðir heims að ná saman um hraðari samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda en þær skrifuðu undir í París forðum daga. Við verðum að gera það hraðar en við gáfum fyrirheit um. Enn sem komið er hefur Ísland bara kynnt markmiðin um 29% samdrátt fyrir árið 2030 í samvinnu við Evrópusambandið. Það lýsir ekki miklum metnaði og mun ekki duga til að Ísland nái kolefnishlutleysi árið 2040.

Ég spyr því ráðherra: Hyggst ríkisstjórnin kynna í New York áform um mun meiri samdrátt í losun en hingað til hefur verið kynnt? Eða hvað hyggst hæstv. ráðherra gera við þessar alvarlegu aðstæður?