150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:37]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Það gleður hjartað að hæstv. ráðherra er bjartsýnn og við komumst langt á því. Þetta eru umhugsunarverð og áleitin mál sem við stöndum frammi fyrir og við eigum kannski að byrja í garðinum heima, eins og ég hef nefnt áður. Við stöndum okkur ekki mjög vel. Það kom fram í fyrirspurn til ráðherra á liðnu þingi að við höfum t.d. ekki yfirsýn yfir það hvernig við urðum eða hvernig umhverfismálum sveitarfélaga er háttað á Íslandi þó að það standi til bóta, að mér skilst.

Annað sem mig langar að nefna eru þessar ívilnanir sem hæstv. ráðherra kom inn á sem ég tel að séu mjög mikilvægar. Við þurfum átak. Ég nefni rafvæðingu hafna. Það er engin höfn á Íslandi sem er háspennt, að mér skilst, og þarna þurfum við að gera breytingar. Það kostar töluvert mikla peninga en það er mikið í húfi. Ég tek sem dæmi að það koma ríflega 100, kannski 110, skemmtiferðaskip til Ísafjarðar á hverju ári og í stoppinu kynda þau olíu sem nemur yfir 900 tonnum. Það er ekki lítið og það eru ekki lítil umhverfisáhrif sem þetta hefur. Við getum ímyndað okkur hvaða áhrif þetta hefur annars staðar þar sem umferð skemmtiferðaskipa er umtalsvert meiri. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er ekki mikils virði að við einhendum okkur í að rafvæða hafnir? Ég nefndi Ísafjörð. Með því að rafvæða hafnirnar er hægt að selja orku fyrir um 53 millj. kr. Er þetta ekki verkefni sem steinliggur, hæstv. ráðherra?