150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:58]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að veita hæstv. ráðherra þá ánægju að halda aðeins áfram að tala um náttúrustofur því að ég hef líka svo mikinn áhuga á þeim. Ég veit að innan náttúrustofa býr mikil þekking sem byggst hefur upp á tveimur áratugum og er byggð út frá hlutverki þeirra sem varðveita heimildir um náttúrufar og stunda vísindalegar náttúrurannsóknir í þeim landshluta sem náttúrustofan starfar og veita ráðgjöf og sinna rannsóknum. Það hefur líka verið unnið mismunandi starf meðal þeirra eftir því hvar þær eru staðsettar, þær eru með mismunandi verkefni og sérhæfa sig í sínu landsvæði og eru því mjög dýrmætar. Þær spanna rannsóknir á gróðri, fuglalífi og dýralífi, fornleifarannsóknir, rannsóknir á fiskeldi og sjávarlífi svo nokkur dæmi séu nefnd, þær hafa ýmis verkefni.

Hæstv. ráðherra talaði um að hann væri búinn að úthluta 22 milljónum til ákveðinnar náttúrustofu og 16 milljónum annars staðar í kerfinu. Mig langar aðeins að inna hana eftir þeim sérstöku samningum sem hafa verið gerðir og viðbótarverkefnum sem hefur verið úthlutað og þeim tryggt fjármagn. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að hægt sé byggja undir starfsemi náttúrustofanna á þessum svæðum, sérstaklega á Vesturlandi eða Vestfjörðum þar sem er fiskeldi, hvað getur komið þar inn í?

Og af því að við erum búin að ræða svolítið náttúrustofur þá langar mig aðeins að nefna vöktun með náttúruvá, t.d. með snjóflóðum og skriðuföllum sem hafa orðið tíðari núna. Sér hæstv. ráðherra einhvern flöt á því að auka þá vöktun?