150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:08]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir innleggið og líkt og hann sagði þá höfum við rætt þetta áður. Í fyrsta lagi fagna ég því mjög að við séum að hækka græna skatta. Við getum nefnt urðunarskatt sem hér kom til umræðu hjá hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni og við áttum orðastað um það hér áðan. Það sama á við um skattlagningu á svokölluðum flúoruðum gróðurhúsalofttegundum sem eru efni sem eru notuð í kælimiðla. Þetta er stórt atriði sem ekki var verið að horfa til þegar ríkisstjórnin var sett saman á sínum tíma. Þetta er því eitthvað sem gæti jú fallið undir það að kanna frekar græna skatta. En ég vil taka undir það að við þurfum að huga að því hvernig við beitum þessari skattheimtu. Hvar á hún að koma niður? Á hún að vera flöt eða á hún að reyna að hafa það að markmiði að ná sem mestum árangri þar sem mengunin verður, þ.e. út frá hinni alþjóðlegu mengunarbótareglu um að þau sem menga borgi eða greiði? Þá kemur oft og tíðum að útfærslunni á þessum sköttum.

Ef við tökum urðunarskattinn sem dæmi þá er það skattur sem mun væntanlega koma í hlut sveitarfélaganna að útfæra eða þeirra sem eiga móttökustöðvarnar. Það er mjög mikilvægt að hvatinn verði sá að þau sem eru dugleg að flokka, taka frá, þar sem matarsóun er lítil, hvort sem það eru heimili eða fyrirtæki, geti notið þess að gera vel. Þetta er grundvallaratriði sem þarf að vinna með. Ég verð víst að taka landbúnað og breytta landnotkun á eftir.