150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að um margt er staða hagkerfisins okkar einmitt alveg einstaklega sterk þó að við séum að fara í gegnum einhverja aðlögun eins og við þekkjum svo sem oft áður. Við þurfum að hafa í huga að íslenska hagkerfið er mjög sveiflukennt hagkerfi. Við erum með eitt sveiflukenndasta hagkerfi hins vestræna heims. Mögulega er það vegna myntarinnar okkar sem grefur reglulega undan samkeppnishæfni útflutningsatvinnuvega okkar og magnar upp sveifluna en það þýðir að við þurfum meiri varfærni í áætlanagerð og fjárlagagerð. Ég held að við þurfum líka að breikka grunninn en ekki horfa eingöngu til einnar opinberrar hagspár. Við þurfum að horfa líka til Seðlabanka og greiningaraðila og velja þá hæfilega varfærin viðmið.

Það leiðir hins vegar hugann að öðru sem við eigum mikið verk óunnið í og það er hin hagsveifluleiðrétta afkoma ríkissjóðs, sem ég held að sé mjög mikilvægt að við náum utan um til þess einmitt að ná meiri festu í opinber fjármál svo að við séum ekki að auka útgjöld óhóflega þannig að ekki verði undir þeim staðið til lengdar í eðlilegu efnahagsástandi, eðlilegum sveiflum í íslensku hagkerfi og líka til þess að við gætum betur að okkur til að skapa nauðsynlegt svigrúm til innviðafjárfestinga. Það er það sem ég held, þegar við horfum um öxl, eftir þetta hagvaxtarskeið sem nú er að líða undir lok, að við ættum að syrgja hvað mest hvað við höfum leyft innviðunum að drabbast niður, hvað við höfum engan veginn haldið fjárfestingarstigi nægilega háu. Matið er núna að 350–400 milljarða vanti í innviðafjárfestingar um allt land í vegakerfi, viðhaldi á opinberum byggingum og svo mætti áfram telja. Við náum ekki enn í skottið á okkur þar og þar verðum við að gera betur.

Við í Viðreisn hefðum viljað sjá talsvert meiri þunga í fjárfestingum í þeirri útgjaldaaukningu sem við sjáum hérna, en þeim mun mikilvægara er að við losum þó um eignir sem eru ekki lífsnauðsynlegar fyrir ríkissjóð að eiga og eins í fjármálakerfinu að draga verulega úr eignarhaldinu þar og (Forseti hringir.) nýta þá fjármuni til innviðafjárfestinga.