150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum búin að vera að ræða fjárlögin og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á reiknivélina áðan. Ég gef mér eiginlega að hann hafi verið að tala um reiknivél sem ég heyrði að reiknaði út hækkun vegna nýja skattþrepsins og hverju það skilaði. Það sem ég skil ekki í þessu samhengi er — það er frábært að vera að búa til nýtt skattþrep sem er hið besta mál — að hefði verið óskandi að það sem það skilaði færi beint til þeirra sem virkilega þurfa á því að halda. Þetta er hins vegar eins og sjónhverfing vegna þess að á sama tíma og við sjáum 5.000 kr. úr þessu skattþrepi eru þær teknar með hinni hendinni. Peningurinn hverfur með persónuafslætti því að hann lækkar. Reiknivélin er mjög flott að því leyti til að hún segir nákvæmlega hvað verður eftir. Það er mjög lítið. En þetta er opinber reiknivél sem gleymir að taka inn — og mér finnst að það ætti að vera þarna inni — allar hækkanir ríkisins, útvarpsgjald, kolvetnisgjöld, sorpeyðingargjöld, allt hækkar. Væri ekki sanngjarnt að hafa það inni í þessari reiknivél? Það ætti að vera hægt og væri auðvitað það réttasta sem við gerðum vegna þess að annars erum við bara að segja annað við fólk þarna úti, og ég veit að þarna úti er fólk sem bíður og vonar og þarf rosalega á þessum skattalækkunum að halda, en því miður verður að segja þessu fólki sannleikann. Það skilar sér ekki á næsta ári og því miður er ég líka hræddur um að það skili sér ekki á þarnæsta ári vegna þess að það er ekki rétt reiknað. Það þarf að reikna öll þessi gjöld sem bæði sveitarfélögin og ríkið leggja á þessa einstaklinga sem hafa nú þegar ekki til hnífs og skeiðar.