150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

þverpólitískt samstarf í samgöngumálum.

[15:30]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið og samkenndina. Það er vissulega erfitt að standa hér í myrkrinu. Þetta mál virðist samt hafa verið talsvert rætt og kynnt innan raða stjórnarflokkanna. Maður finnur það áþreifanlega að þegar maður mætir í umræðu um þetta mál eru fulltrúar stjórnarflokkanna einmitt ágætlega upplýstir um smáatriði þessa máls á meðan minni hlutinn hefur ekki fengið minnstu kynningu á því. Þetta er mikilvægt og veigamikið mál þar sem verið er að tala um 6 milljarða, að sögn, viðbótarálögur á íbúa höfuðborgarsvæðisins á ári hverju. Það er jafn mikið og öll þjóðin greiðir árlega í kolefnisgjöld, svo að dæmi sé tekið. Slík áform hljóta að krefjast víðtækara samráðs og kynningar en hér er á ferðinni og ég vona að áður en við sjáum einhver frumvörp koma fram um þetta mál sé þessi ríkisstjórn tilbúin að setjast niður og ræða þessi mál á breiðari grunni. Í hinu þverpólitíska samráði innan raða ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) virðist enda ekki vera neitt samkomulag um málið. Þá væri kannski ráð, áður en farið er lengra með málið, að taka það upp á yfirborðið og ræða það.