150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

kynningarfundur í ráðuneyti á þingfundartíma.

[13:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim ræðumönnum sem komu í púltið á undan mér. Það er enginn bragur á þessu. Við viljum öll, sama hvar í flokki við stöndum, vinna málið vel. Við viljum vinna saman. Það er eins og ríkisstjórnin þekki dagskrá þingsins ekki nægilega vel. Það var tveggja tíma hlé í hádeginu. Tvo daga í þessari viku eru ekki þingfundir, á morgun og á föstudaginn. Af hverju í ósköpunum getur ríkisstjórnin ekki skipulagt sig betur og meira í samvinnu við og af virðingu við Alþingi Íslendinga? Mér sýnist á öllu að ríkisstjórnin þurfi í þessum málum, eins og mörgum öðrum, á ákveðinni aðstoð eða hjálp að halda, hvort sem er út af samgöngumálum eða öðru. Kannski er það þó hitt, að ríkisstjórnin er að reyna að hafa sem flesta þingmenn fjarri skattaumræðunni til að fela það að hún er að fara að flækja og gera skattkerfið ómögulegt. (Gripið fram í: … hugsa um að lækka …) Til hvers að flækja skattkerfið (Gripið fram í.) og hækka skatta jafnvel líka? (Forseti hringir.) Það er boðaður fundur á eftir uppi í ráðuneyti sem gengur út á það að hækka skatta á suðvesturhornið. (Forseti hringir.) Er verið að reka okkur þingmenn suðvesturhornsins frá þinginu á meðan? Ég spyr: Af hverju?