150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

kynningarfundur í ráðuneyti á þingfundartíma.

[13:37]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti var alls ekki kominn að því, ætlaði að hlusta á þingmenn og síðan að tjá sig um það sem þeir hafa haft fram að færa. Það vill svo til að forseti er alveg sammála. Það er ómögulegt að ráðuneyti boði stóran hluta þingmanna á fund á þingfundartíma og við það mun ég gera athugasemdir. Það er að vísu ekki við ríkisstjórnina í heild að sakast. Ef rétt er eftir tekið er það einn ráðherra sem hefur boðað hóp þingmanna á fund akkúrat á þingfundartíma og það er ekki gott. Auðvitað kemur það ekki í veg fyrir að ýmislegt rekist á, þannig er t.d. stór #metoo-ráðstefna að hefjast nú kl. hálfþrjú þar sem margir þingmenn vildu eflaust vera. En það er annars eðlis þegar um er að ræða ráðstefnur utanaðkomandi aðila eða í samstarfi við fleiri en þegar Stjórnarráðið sjálft virðist ekki taka eftir því að það er starfsáætlun í gildi á Alþingi.

Það breytir engu um hitt að forseti gerir athugasemdir við það að hann hafi ekki málfrið meðan hann tjáir sig. Það er ekkert að því að gera athugasemdir við það að farið sé í efnisumræðu um t.d. skattamál, sem eru hér á dagskrá á eftir, undir liðnum fundarstjórn forseta. Það er eðlilegt að forseti veiti aðhald í þeim efnum. Það er eðlilegt að þingmenn ræði störf þingsins undir liðnum störf þingsins eða geri athugasemdir sem vel má heimfæra undir fundarstjórn af því tagi sem þingmenn voru að gera, en skattaumræða á þar ekki heima.