150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

kynningarfundur í ráðuneyti á þingfundartíma.

[13:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hingað til að taka undir með þeim sem hafa tjáð sig um það fyrirkomulag sem okkur er boðið upp á og óska leiðsagnar forseta alls Alþingis, ekki bara forseta stjórnarmeirihlutans heldur forseta alls Alþingis, og spyr: Á sú sem hér stendur að rækja skyldur sínar eins og stendur í þingsköpum og mæta á þingfund á eftir til að ræða skattstefnu ríkisstjórnarinnar eða á sú sem hér stendur ásamt öðrum þingmönnum sem boðaðir hafa verið á fund hæstv. samgönguráðherra til að kynna samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar, sem stjórnarþingmenn fengu kynningu á í síðustu viku, að mæta á þann fund sem ríkisstjórnin er að boða okkur á á sama tíma?

Við þurfum að fá leiðsögn í því máli af því að þess er vænst að við séum á tveimur stöðum á sama tíma í vinnunni okkar. Það þýðir ekki að tala um (Forseti hringir.) að hæstv. forsætisráðherra ætli að ræða málið við okkur á morgun af því að þetta er að gerast eftir 16 mínútur.