150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[15:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið þó að spurningunum væri kannski ekki svarað en það er ágætt að þessi efnisatriði hafi komið fram. Nú hljómar þetta þannig að hér sé meira um viljayfirlýsingu að ræða en samning. Það er svo sem ágætt og á pari við það sem ég hefði sjálfur talið eðlilega hanteringu í þessum efnum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga til viðbótar þó að svörin hafi ekki komið við þeim fyrri: Er ráðherra kunnugt um að á fyrri stigum hafi ráðherra í ríkisstjórn Íslands skuldbundið ríkissjóð um jafn háa upphæð og þarna kemur fram, sem er a.m.k. 50 milljarðar, án þess að málið hafi komið til sérstakrar afgreiðslu á Alþingi? Þarna er ég að undirstrika það að hér er meira um viljayfirlýsingu að ræða en eiginlegan samning miðað við fyrra svarið. Hin spurningin er: Verður þá slitið eða sagt upp svokölluðum stórframkvæmdasamningi frá 2012, þar sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gerðu samning við ríkissjóð um að 1 milljarður færi árlega til almenningssamgangna gegn því að ekki yrði farið (Forseti hringir.) í stórframkvæmdir, eða verður sá samningur virkur áfram?