150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

jarðamál og eignarhald þeirra.

[15:16]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, fyrir að vekja máls á jarðamálum og eignarhaldi þeirra. Alveg sama hver afstaða fólks er til þessa máls held ég að við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að skýra lagarammann fyrir jarða- og landaviðskipti. Við ræddum þetta síðast í nóvember í fyrra og lágu þá fyrir tillögur starfshóps um málið og ári síðar eða allt að því virðist lítið hafa gerst þó að ég fagni því sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra um að vinnan sé greinilega í fullum gangi. Við hljótum því að leggja áherslu á að þetta verði drifið af og klárað sem fyrst.

Í mínum huga snýst málið reyndar ekki um að tryggja að yfirráð auðlindanna haldist í eigu landsmanna heldur er mikilvægast að gæta þess og tryggja að bújarðir og auðlindir sem þeim kunna að fylgja safnist ekki á hendur fárra einstaklinga hverrar þjóðar svo sem þeir eru. Eignasöfnun á fárra hendur er aldrei eftirsóknarverð og þá verðum við sömuleiðis að hafa í huga þær dýrmætu auðlindir sem jörðum fylgja, eins og til að mynda vatnsréttindi. Ég er því hlynnt því að settar verði einhverjar reglur um hversu mikið land hver og einn má eiga hvort sem um er að ræða Íslendinga eða útlendinga.

Eins og kom fram í skýrslu starfshóps um eignarhald á bújörðum hafa önnur Norðurlönd þegar sett slíkar takmarkanir í sína löggjöf, svo sem Noregur og Danmörk en einnig má nefna t.d. Álandseyjar sem eru með nokkuð strangar reglur um búsetu og annað slíkt, jafnvel til að eignast hús. Hvaða leið vilja íslensk stjórnvöld fara? Því þarf ríkisstjórnin að svara og það sem allra fyrst en ég saknaði þess að heyra í annars ástríðufullri ræðu hæstv. forsætisráðherra áðan hvenær hún hyggst ljúka þessari vinnu og leggja málin fyrir þingið.