150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[18:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er almennt sammála hv. þingmanni um þetta. Ekki er óeðlilegt að spyrja þeirrar spurningar sem hann gerir hvað varðar aðskilnað löggjafarvalds og dómsvalds. Þetta mál væri ekki komið á þann stað sem það er núna, og fór fyrir dómstóla, nema vegna aðkomu Alþingis á sínum tíma, sem hv. þingmaður þekkir mjög vel frá árinu 2014 þegar Alþingi heimilaði einmitt endurupptöku. Þá voru vafalaust einhverjir sem spurðu sömu spurningar: Er Alþingi ekki að fara inn í mál með mjög óeðlilegum hætti, að heimila endurupptöku í máli þeirra sem látnir eru? En Alþingi ákvað það. Alþingi ákvað það á sínum tíma og það er hluti af því að við erum komin með málið hingað því að við erum enn og aftur að horfa á þessa jafnsetningu. Við getum haft skoðun á því hvort þetta eigi að verða almennt fordæmi. Ég segi: Þetta þarf ekki að verða almennt fordæmi, vegna þess hve sérstaklega þetta mál er vaxið.