150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans orð. Játning í frelsi hefur vissulega átt sér stað. Það hefur komið fyrir að fólk hafi neitað sök hjá lögreglu og játað fyrir dómi. Það hefur gerst. Eins undarlega og það hljómar hefur það gerst, þannig að það er til.

Ég get ekki fallist á það sem kom fram í máli hv. þingmanns að játningar í dómsal hafi verið studdar gögnum þannig að hafið væri yfir vafa. Ég held að það sé frekar langsótt, sérstaklega þegar gögn sýndu að sakborningar höfðu verið leiddir áfram á ákveðinn hátt en höfðu samt sem áður greint svo frá að þeir hefðu verið á ákveðnum stað á ákveðnum tíma en þær upplýsingar fallið einhvers staðar milli þilja hjá rannsakendum. Sakborningar greindu t.d. ítarlega frá því hvað þeir hefðu verið að horfa á í sjónvarpinu umrætt kvöld sem þeir áttu að hafa verið einhvers staðar annars staðar á landinu o.s.frv. Ég ætla ekki að rekja Guðmundar- og Geirfinnsmálið en ég hvet hv. þingmann til að greiða leið þess máls sem nú er í meðförum þingsins sem varðar það að Alþingi skipi loksins rannsóknarnefnd til að fara yfir þetta mál. Ég treysti á liðsinni þingmannsins hvað það varðar. Hvað varðar þá sem voru ranglega sakaðir held ég að þeir hafi fengið bætur. Ekki satt?