150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

upphæð örorkulífeyris.

[10:50]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Margar af þeim aðgerðum sem við erum að vinna munu nýtast þessum hóp sérstaklega og við erum þegar farin að sjá ávinning af því. Ég bendi t.d. á að byggðar verða 600 almennar íbúðir á næsta ári sem m.a. félag örorkulífeyrisþega getur sótt í. Við höfum lagt áherslu á að ná í gegn breytingum sem miða að því að breyta endurhæfingarkerfinu vegna þess að við þurfum í sameiningu að ná utan um það að draga úr nýgengi örorku. Það er verkefni sem skiptir máli. Þegar við skoðum hækkanir sem sannarlega þarf fyrir þann hóp verðum við að skoða þær í því samhengi hver fjölgunin verður á næstu árum og áratugum. Vandi okkar er sá að við höfum verið með þetta allt í einum hóp en við getum ekki tekið ákveðna hópa út fyrir. Það er því svo mikilvægt að við náum í gegn breytingum sem miða að því að efla starfsendurhæfingarkerfið og draga úr nýgengi örorku, þannig að við getum gert meira fyrir þann hóp sem þarna er (Forseti hringir.) og sannarlega þarfnast aukinna fjármuna.