150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

barnaverndarlög.

123. mál
[16:36]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir svörin. En það sem mig langar að vita er í hversu mörgum tilfellum við getum áttað okkur á því að um ofbeldi sé að ræða, bæði þar sem annað foreldri beitir hitt ofbeldi og jafnvel börnin líka. Hvernig er það aðskilið frá því þegar hreinlega er verið að nota barnið í skilnaðarmálum sem vopn í baráttunni eða af öðrum orsökum? Er vitað um tölfræðilegan mun á þessu? Er mikill munur þar á? Það er greinarmunur á þessu tvennu og hlýtur að vera erfiðara viðureignar ef um ofbeldi er að ræða en mál þar sem eingöngu eru deilur út af skilnaði og annar aðilinn er mjög ósáttur við skilnaðinn og notar barnið og beitir því fyrir sig í þeim tilgangi.