150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðafjárskatt og í því felst algjörlega ný nálgun. Í hnotskurn felst í frumvarpi Viðreisnar að hætt verður að líta á dánarbú sem skattstofn en í stað þess verður hann arfur hvers og eins erfingja. Gert er ráð fyrir að hver og einn erfingi fái afslátt af skattstofni sem nemur 6,5 millj. kr. Í dag er heimilt að draga 1,5 millj. kr. frá skattstofni dánarbúsins í heild. Erfðafjárskatturinn verður þrepaskiptur þannig að hann verði 10% af næstu 8,5 millj. kr. umfram afsláttinn af skattstofninum, 15% af næstu 15 millj. kr. og eftir það 20%.

Frumvarpið felur í sér verulega skattalækkun til alls þorra erfingja og er mikið réttlætismál. Samkvæmt gögnum frá ríkisskattstjóra var miðgildi verðmætis dánarbúa 14,5 millj. kr. árið 2017 og sama ár var miðgildi þess arfs sem féll í hluta hvers erfingja 3,5 millj. kr. Sömu gögn sýna að 81% þeirra sem fengu arf þetta ár fékk 10 millj. kr. eða minna í arf. Erfðafjárskatturinn sem þessi hópur greiddi var um 1,3 milljarðar kr.

Frumvarp Viðreisnar felur í sér að þessi stóri hópur mun ýmist greiða engan skatt eða mun lægri skatt en samkvæmt núgildandi lögum. Skattheimta ríkisins af þessum hópi mun því minnka um a.m.k. 1 milljarð kr. Þeir sem fá meira en 25 millj. kr. í arf munu á hinn bóginn greiða hærri skatt en nú er. Sem dæmi má nefna að sá sem fær 50 millj. kr. í arf mun greiða í virkan skatt u.þ.b. 14,2% og þeir sem fá 100 millj. kr. munu greiða um 17,1% í virkan skatt.

Með þessu frumvarpi er sleginn nýr tónn sem mun minnka skattbyrðina hjá 80% erfingja en hækka hana (Forseti hringir.) hjá þeim 20% sem mest fá í arf.