150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[14:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að reyna að koma í andsvar án þess að tala um þriðja orkupakkann. Ég veit ekki alveg hvort það takist í kjölfar þeirra orða sem hv. þingmaður hefur látið falla í síðustu andsvörum. Ég var á svipaðri leið og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. Ég verð svolítið ringlaður yfir því hvernig nákvæmlega Miðflokkurinn og hv. þingmaður sjá fyrir sér áframhaldandi samstarf í EES ef þriðji orkupakkinn var hornsteinn í því máli vegna þess að eins og hv. þingmaður man eflaust jafn vel og ég vorum við að tala um reglugerðir og tilskipanir frá árinu 2009, þ.e. tíu ára gömul verk Evrópusambandsins sem voru búin að vera í mikilli umræðu í Evrópusambandinu og innan stjórnsýslunnar hér í mjög langan tíma. Eins og hæstv. utanríkisráðherra fór inn á áðan komu hv. þingmenn Miðflokksins að því á sínum tíma að leggja til að það yrði samþykkt þegar þeir voru í ríkisstjórn. Mér er persónulega alveg sama hvers vegna sá viðsnúningur varð sem hæstv. utanríkisráðherra talaði um. Mér finnst það ekki koma málinu við. Rök eru rök, óháð því hvort þau voru lögð fram í fyrra eða hittiðfyrra.

Það sem ég er að reyna að segja er að allt þetta samanlagt finnst mér gera málflutning hv. þingmanns gagnvart sambandi Íslands við EES afskaplega flókinn. Ef við ætlum að vera þar áfram hlýtur það að vera á þeim grunni sem við erum á núna. Og ef ekki, þá á hvaða grunni? Hvernig myndi hv. þingmaður vilja breyta fyrirkomulaginu eða breyta því hvernig Ísland tekur þátt í samstarfinu?

Ég þori varla að stinga upp á því að við reynum að halda þriðja orkupakkanum utan við efnið vegna þess að ef hann er eitthvað sem veldur viðsnúningi eða sérstökum vangaveltum er ég mjög ringlaður yfir því hvernig þingmaður sjái fyrir sér framhaldið.