150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[15:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður að heyra að samstaða er um að halda vörð um EES-samninginn. Ég áttaði mig ekki alveg á hvað hv. þingmaður var að fara varðandi gengi krónunnar. Þegar það fellur þá kemur það ekki niður á útflutningnum. Það eru útflutningsgreinarnar sem alla jafna hagnast á því, en almenningur verður fyrir því og ýmsir fleiri því að við erum mjög háð innflutningi, vörur hækka og síðan sjáum við oft verðbólgu og það er svo sannarlega galli. Okkur hefur líka fundist það vera galli að vextir hafa verið hærri en í mörgum þeim löndum sem við berum okkur saman við þó að það virðist vera að breytast núna, sem er vel.

Það er ekkert fullkomið og svo sannarlega ekki að hafa eigin gjaldmiðil, en ég held að íslenskt þjóðfélag muni fara mjög illa út úr því ef mikið atvinnuleysi verður, sérstaklega meðal ungs fólks eins og við sjáum t.d. í evrulöndunum og síðan er ekki bitið úr nálinni með evruna því að ljóst er að ef hún á að virka þurfa menn að fara í miklar aðgerðir sem ekki er pólitísk samstaða um.

Varðandi viðskiptamálin getum við borið saman viðskiptanet ESB og EES. Við þekkjum það sömuleiðis að við erum með mun frjálslyndari viðskiptastefnu en ESB. Við erum með 90% tollfrelsi meðan það er um 26% í Evrópusambandinu, sem þýddi það að ef við gengjum inn myndi verð hækka mikið á vörum hér sem eru ekki með neina tolla núna. Þetta hefur allt saman komið fram.

Það er ekki þannig að landbúnaðurinn sé ekki niðurgreiddur í Evrópusambandinu. Sá aðgangseyrir sem við myndum greiða í inngöngu færi nú að stórum hluta í það að niðurgreiða landbúnað í öðrum löndum. En ef við ætlum að stokka upp landbúnaðinn þá getum við gert það sjálf, enda höfum við alveg fulla stjórn á því.