150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[15:31]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég óska Íslendingum öllum til hamingju með 25 ára farsælt samstarf á EES-svæðinu, ég á mjög bágt með að trúa því að liðin séu 25 ár. Ég held að Viðeyjarstjórninni þáverandi verði seint fullþökkuð sú framsýni að koma okkur í þetta samstarf. Ég er sammála því sem hér hefur komið fram að þetta var stökk inn í nútímann. Við stukkum inn í nútímann fyrst í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og þetta var kannski stökk númer tvö. Ég lít svolítið á þessi tímamót, þegar þessi samningur var undirritaður af hálfu Íslands, sem endalok helmingaskiptakerfisins eða helmingaskiptasamfélagsins eins og við mörg þekktum það.

Þessi skýrsla er mjög góð og ég fékk þann heiður að fá kynningu á henni frá nefndinni sem stóð að henni í utanríkismálanefnd og áttum við þar mjög fróðlegar og góðar samræður. Ég held að skýrslan sýni svart á hvítu kosti samstarfsins fyrir okkur Íslendinga. En það er alltaf galli á gjöf Njarðar og ég held að það hafi kannski sýnt sig. Á þessum 25 árum eru kannski lélegir leikarar sem kunna sér ekki hóf á þessu stóra leiksviði, stærra leiksviðinu. En ég get ekki kennt leiksviðinu um. Ég held að lélegir leikarar séu lélegir leikarar, alveg sama hvort leiksviðið er eingöngu Ísland eða Evrópska efnahagssvæðið. Ég vil því segja eitt við efasemdarmenn þessa samstarfs, hvort sem það er á grundvelli auðlinda, sem er þá orkan, sjávarútvegurinn, landbúnaðurinn, náttúran og vatnið, eða hvort það er út af framsali á fullveldi, að við myndum sjálfsagt leysa margt með nýrri stjórnarskrá því að þar er kveðið skýrt á um að allar auðlindir séu í ævarandi sameign þjóðarinnar. Þar er ákvæði um framsal á fullveldi, og ég tek undir það sem kom fram hér áðan að það mætti jafnvel vera skýrara og nútímalegra. En það er líka eitt í nýju stjórnarskránni sem gleymist kannski í þessu samhengi, þ.e. að það er sett í hendur þjóðarinnar að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu ef eitthvað fer á milli mála eða einhver óánægja er um einstök mál innan samstarfsins, og svo er líka frumkvæðisréttur þjóðarinnar þannig að þjóðin getur lagt fyrir Alþingi að skoða ákveðin mál sem almenningur hefur áhyggjur af en þingheimur hefur ekki rænu á að taka til athugunar. Ég held að ný stjórnarskrá myndi leysa mikið af þessum málum þannig að efasemdarmenn um samstarf ættu að geta unað sáttir við sitt.

Mig langar í sambandi við skýrsluna að tala sérstaklega um áhrifin á ungu kynslóðina en við búum svo vel að eiga menntuðustu ungu kynslóð í sögu lýðveldisins. Mig langar að tala sérstaklega um möguleika og tækifæri ungu kynslóðarinnar og framtíðar okkar sem ríkis og þá einkum samstarfsáætlanir Evrópusambandsins sem okkur gefst kostur á að taka þátt í í gegnum EES-samninginn. Rannís áætlar að frá 1992 hafi yfir 40.000 Íslendingar tekið þátt í evrópsku samstarfi með stuðningi frá samstarfsáætlunum ESB. Það er meira en tíundi hver Íslendingur. Styrkveitingar til íslenskra aðila hafa verið umtalsvert hærri en fjárhagslegar skuldbindingar Íslands vegna þátttökunnar á tímabilinu og veruleg hækkun verður á styrkveitingum frá árinu 2014. Rannís hefur haft umsjón með þátttöku Íslands í þremur stærstu áætlununum frá 2014 og hefur unnið ítarlega greiningu á árangri Íslands frá þeim tíma og borið hann saman við árangur annars vegar Norðurlandanna og hins vegar Írlands, Lúxemborgar og Möltu. Þar kemur fram að árangurshlutfall íslenskra umsækjenda í opinni samkeppni er fyrir ofan meðaltal og styrkveitingar á hvern íbúa er hæstar á Íslandi af samanburðarlöndunum, bæði samanlagt og í hverri áætlun fyrir sig.

Fjárveitingar til þeirra þriggja samstarfsáætlana Evrópusambandsins sem mest þátttaka er í hækkuðu umtalsvert þrátt fyrir samdrátt í heildarfjárlögum Evrópusambandsins á þessu tímabili. Þetta eru einmitt áætlanir á sviði rannsókna og nýsköpunar, menntunar, æskulýðsmála og skapandi greina, kvikmynda og á sviði menningar. En mikilvægt er þó að leggja áherslu á að mesti ávinningurinn af þátttöku í samstarfsáætlunum ESB er ekki alltaf eins augljós og sá fjárhagslegi, heldur ávinningur sem snýr að þekkingarauka, nýsköpun, tengslamyndun íslenskra vísindamanna, kennara, nemenda og allra annarra þátttakenda frá fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnunum.

EES-samstarfið hefur reynst gífurlega mikilvægt fyrirtækjum í frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun. Fyrirtæki eins og Marel og Nox Medical hefðu ekki orðið eins farsæl ef þessa samstarfs nyti ekki við. Nox Medical sem sérhæfir sig í smíði tækja og hugbúnaðar til svefnrannsókna hefur fært á annan tug milljarða í þjóðarbúið í formi gjaldeyristekna. Fimm milljónir manna hafa fengið greiningu svefnvandamála með búnaði fyrirtækisins frá því það var stofnað. Aðgengi að mörkuðum Evrópu og að falla undir evrópskt regluverk skiptir sköpum fyrir fyrirtæki sem þessi og er forsenda þess að þau geti byggt upp starfsemi sína á Íslandi. Fjórfrelsið, þ.e. frjálst flæði á vöru, þjónustu, fjármagni og fólki sem er einstakt í viðskiptasamningi, gerir fyrirtækjum eins og Nox Medical kleift að ráða stóran hluta sérfræðinga sinna frá öðrum EES-ríkjum. Eins getur fyrirtækið, sem er íslenskt, rekið starfsemi í Þýskalandi og Englandi sem ekki bæri við ef við hefðum ekki fjórfrelsið.

Svo má auðvitað ekki gleyma hversu mikilvægur menntunarþáttur ESB-samstarfsins er fyrir samstarf fyrirtækja við háskóla og alþjóðlegt rannsóknarsamfélag. Frá árinu 2011 hafa íslensk fyrirtæki og stofnanir tekið þátt í 211 verkefnum er tengjast samstarfsáætlunum Evrópusambandsins á sviði rannsókna og nýsköpunar. Þetta hefur skilað 92 milljónum evra til íslensks vísinda- og nýsköpunarsamfélags. Þegar við horfum á hlutfall samþykktra ESB-styrkja hjá íslenskum fyrirtækjum og stofnunum hefur hlutfallið verið 18–20% fyrir Ísland en til samanburðar er hlutfallið almennt 14–15% í öðrum ESB-ríkjum. Fjöldi íslenskra fyrirtækja, félagasamtaka, stofnana, og sérstaklega ungs fólks, hafa verið virkir þátttakendur í samstarfinu. Matís, Össur, Skaginn, Curio, Nox Medical, IceWind, Genis, Aurora Seafood, GEORG – Rannsóknarklasi í jarðhita, Strætó, MarkMar, NýOrka — ég gæti talið fleiri upp í allan dag. Þessi fyrirtæki væru varla með starfsemi hér á landi ef ekki væri fyrir EES-samstarfið, alla vega hluti af þeim.

Ég geri ráð fyrir að flestir hafi heyrt um Erasmus. Það eru óendanlegir möguleikar á menntun ungs fólks víða um Evrópu. Við erum með best menntuðu kynslóð í lýðveldissögunni. Það er að stórum hluta EES-samstarfinu að þakka. Ég vil ekki að við takmörkum þessa möguleika ungs fólks til menntunar, nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi. Þess vegna vil ég helst að við tökum þátt í þessu samstarfi með óbreyttum hætti, samþykkjum nýja stjórnarskrá, tökum þátt í samstarfinu, a.m.k. 25 ár í viðbót, ef ekki lengur. Ég held að það sé forsenda framtíðarinnar á Íslandi og forsenda fyrir framtíð ungs fólks á Íslandi. Við viljum ekki missa unga fólkið okkar varanlega úr landi. Með EES-samstarfinu getum við átt í samstarfi um alla Evrópu án þess að hreyfa á okkur lappirnar. Við getum verið hér heima. Ég vonast því til að sjá áframhaldandi mjög farsælt samstarf fyrir unga fólkið og framtíðina.