150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[16:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það getur verið að við hv. þingmaður getum gert okkur þetta að ágreiningsefni með einhverjum hætti. Við nálgumst hlutina frá mismunandi sjónarmiði í þessu sambandi. Ég endurtek bara það sem ég sagði, á ákveðnum sviðum eru áhrif EES-samningsins gríðarlega mikil og gríðarlega mikilvæg. Ég held að við hv. þingmaður séum líka sammála um að hann hefur víðtækari áhrif þegar vel gengur í atvinnu- og efnahagslífi. Hann hefur áhrif um allt þjóðfélagið, kannski meiri en hægt er að mæla á grundvelli þess að svo og svo margar reglur séu innleiddar eða þess háttar. Alveg ótvírætt. Ég held hins vegar að þetta sýni okkur kannski fram á að með sama hætti og það er hugsanlega ófullkominn mælikvarði að telja fjölda reglugerða eða lagaákvæða sem eiga rót í EES-samstarfinu eða mæla að miklu leyti íslenskar reglur sem eiga bakgrunn í EES-reglum, er það líka áminning um að það er varasamt að fara fram með fullyrðingar eins og hafa stundum verið hafðar uppi, kannski einkum á fyrri árum — ég hugsa það hafi kannski minna kveðið að þeim nú síðari árin — að skrefið úr EES-aðild yfir í ESB-aðild væri svo stutt vegna þess að við hefðum hvort sem er tekið meira og minna reglur Evrópusambandsins upp í gegnum EES-samninginn. Ég held að þetta ætti að vera þeim sem vilja koma okkur inn í ESB ákveðið umhugsunarefni en hugsanlega líka þeim sem vilja að við hverfum frá EES-samningnum á þeim grundvelli að (Forseti hringir.) hann sé eiginlega bara full ESB-aðild.