150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[17:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem lyftir umræðunni á skemmtilegt plan eins og oft hjá hv. þingmanni. Mér fannst nálgun hans góð og er sammála honum um að það skipti ekki máli hvort það sé Evrópusambandið eða eitthvað annað, menn eiga að segja satt og rétt frá. Það er rétt hjá hv. þingmanni að reglugerðin um banana er ósönn. Þetta var reglugerð um agúrkur. Af hverju einhverjum datt í hug að búa til reglugerð um agúrkur, hvernig þær væru í laginu o.s.frv., er mér hulin ráðgáta en hún kemur að vísu inn á þá gagnrýni sem Evrópusambandið verður fyrir, að það þurfi að gera reglur um allt sem þyrfti ekki að gera reglur um. Ég er að vísu ekki alveg viss um að söguskýring hv. þingmanns standist að öllu leyti. Ég held að hún hafi verið svolítið skreytt en mér finnst gott hjá hv. þingmanni að hann nálgast þetta hugmyndafræðilega eins og ég skil hv. þingmann og hann trúir á að þetta sé leiðin. Ég hef hins vegar mjög miklar efasemdir um það. Ég held að ekkert sé yfir gagnrýni hafið og það er mjög hættulegt þegar menn þola illa gagnrýni. Ég er ekki að tala um hv. þingmann en forsvarsmenn Evrópusambandsins eru mjög viðkvæmir fyrir gagnrýni sem ég held að sé meðal vandamála sambandsins. Það er alveg skýrt hvað þeir sem keyra áfram Evrópusambandið vilja, þeir vilja sambandsríki Evrópu. Það er alveg kýrskýrt og þessi einarða stefna er náttúrlega ein af ástæðum vandans, en hvernig sér hv. þingmaður þetta fyrir sér? Vill hv. þingmaður að Ísland sé þátttakandi í slíku?