150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað svo að hér í þessum sölum heyrast stundum þær raddir að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu en segja má að þrýstingurinn á það hafi nú sjaldan verið minni. Ef horft er út fyrir veggi Samfylkingarinnar og Viðreisnar er ekki mikill þrýstingur í þá átt. Þeir flokkar sem hafa gert þetta að baráttumáli sínu á undanförnum árum hafa ekki fengið mikinn hljómgrunn þannig að ég held að burt séð frá öllu öðru sé pólitískt ólíklegt að þær aðstæður skapist hér á næstu árum að aðild að Evrópusambandinu verði raunhæfur kostur. Hvernig fór um aðildarumsóknina og aðlögunarferlið sem var sett í gang árið 2009 gefur ekki tilefni til að ætla að þetta verði tekið upp á næstunni. En auðvitað veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér.

Ég held hins vegar að ef við förum yfir einstök svið myndu menn sjá bæði kosti og galla á ýmsum atriðum sem Evrópusambandið felur í sér og skilur sig frá Evrópska efnahagssvæðinu. Ég hygg t.d. að hægt sé að fara til margra mismunandi landa í Evrópusambandinu og fá mjög mismunandi svör um það hvernig evran hefur reynst þeim sem mynt á undanförnum árum. Ég held líka, ef við tökum bara afmörkuð svið eins og sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál eða aðra slíka þætti, myndu menn segja mjög misjafna sögu eftir því hvar væri borið niður innan Evrópusambandsins í þeim efnum. En hins vegar er einnig rétt að hafa í huga (Forseti hringir.) að Evrópusambandsaðild felur auðvitað líka í sér mun ríkara framsal ríkisvalds (Forseti hringir.) en fyrirkomulag Evrópusambandsins og við höfum kannski lítið og allt of lítið rætt það í dag. (Forseti hringir.) Það er fyrir marga, alla vega mig, (Forseti hringir.) töluvert viðkvæmt svið sem verður að nálgast af varfærni.

(Forseti (BHar): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörkin.)