150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, vitaskuld er hún til. Hún er til vegna þess að hún verður að vera til. Ég get ekki séð fyrir mér að það geti nokkurn tíma orðið öðruvísi. Mér finnst hins vegar í grundvallaratriðum slæmt að reiða sig á hana, sérstaklega ef hinn almenni skilningur — ég veit svo sem ekki einu sinni sjálfur hvað ég á við með almennum skilningi, hvort ég sé að tala um almennan skilning lögfræðinga eða almennan skilning kjósenda eða yfirvalda — hver sem hann er, er á einum tímapunkti, segjum 1991, alveg skýr en hvergi skrifaðar niður og ekki til í fullmótaðri stjórnskipunarvenju og svo líða árin og áratugirnir og þá fer stjórnskipunarvenjan að breytast en einhvern veginn á samtalið sér aldrei stað um hvernig hlutirnir eigi endanlega að vera.

Ég vil alltaf hafa sem skýrasta leiðsögn í stjórnarskrá, sérstaklega þegar kemur að takmörkunum á valdi. Þegar allt kemur til alls er það takmörkun á valdi sem við erum að tala um. Við erum að tala um framsalsákvæði í stjórnarskrá, ákvæði til að takmarka getu yfirvalda til að framselja vald. Ég ber fulla virðingu fyrir og þakka fyrir alla þá umræðu sem á sér stað meðal fræðimanna og verður til í gegnum dóm sögunnar og hvaðeina. Það er samt grundvallaratriði að hinn almenni borgari geti lesið stjórnarskrána og skilið hana. Það er ákveðið grundvallaratriði í mínum huga. Ég fullyrði að hugtakið stjórnskipunarvenja eitt og sér ruglar sennilega flesta áheyrendur sem hlusta á Alþingi. Það eitt og sér er vandamál. Það þarf ekkert að vera það. Það er hægt að hafa þetta einfaldlega skýrt í stjórnarskrá. En auðvitað verða alltaf stjórnskipunarvenjur, það verða alltaf dómafordæmi. Það verður alltaf eitthvað sem flækir hlutina. Þetta er ekki fullkomið kerfi og getur ekki verið það, hvorki lagakerfið né stjórnarskráin né neitt. En þetta finnst mér vera mjög augljós galli á stjórnarskrá og tiltölulega augljóst að mínu mati hvernig eigi að laga hann og mér finnst við eigum að gera það og mér finnst mjög mikilvægt að við gerum það. Ég vona að það svari spurningu hv. þingmanns.