150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð nú að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á hvert hv. þingmaður er að fara. Mér fannst það ekki vera skýrt. Nú erum við búnir að ræða margoft m.a. álit fræðimannanna Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts. Þeir þurftu að senda sérstaka yfirlýsingu til að skýra betur álitið vegna ummæla sem voru viðhöfð hér á þinginu í tengslum við þá orðræðu og ég veit ekki hvort við vinnum eitthvað með því að endurtaka það allt saman. Ég er fullkomlega ósammála uppleggi hv. þingmanns. Nú er ég búinn að vera lengi í þinginu og hef beðið um ýmsar skýrslur. Ég man ekki eftir því áður þegar þingmenn biðja um skýrslu að þeir hafi fengið jafn ítarlegt og vandað gagn og hér er á ferðinni og ég var mjög ánægður að heyra hvernig hv. þm. Ólafur Ísleifsson talaði um skýrsluna áðan. Ef þessi skýrsla er ekki fullnægjandi til að koma til móts við skýrslubeiðnina þá er langt seilst.

Virðulegi forseti. Þegar mál eins og þetta er rætt er ekki hægt að setja það í excel-skjal og koma með einhverja niðurstöðu. Við heyrum það t.d. í umræðum í þinginu — og þannig verður það vonandi alltaf — að menn hafa ýmis sjónarmið hvað skýrsluna varðar og samstarfið. En ef ég hefði fengið svona skýrslu vegna skýrslubeiðna minna sem þingmaður sem svona mikil vinna er lögð í, (Forseti hringir.) hefði ég verið vægast sagt mjög sáttur. Aldrei fékk ég svona skýrslu þótt ég hafi beðið um ýmsar á mínum ferli sem þingmaður.