150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[19:04]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessar skýrslur og utanríkisráðherra fyrir flutning á þeim og ágætar umræður. Mér finnst, eftir að hafa hlustað á umræðurnar í dag, sem nokkur hluti þingmanna sæki svolítið í að búa til skotgrafir þannig að sumir séu með EES-samningi og aðrir séu á móti. Mér finnst ekki rétt að taka þannig á þessu. Samningurinn sem um ræðir er náttúrlega mjög flókinn, viðamikill og óvenjulegur vegna þess að sífellt er verið að bæta við hann. Það er þá annar aðilinn sem er raunverulega alltaf að bæta við samninginn og við hljótum alltaf að vera á tánum og á varðbergi gagnvart honum. Það hlýtur að vera hin eðlilega afstaða að vera á varðbergi, maður er aldrei alveg með eða alveg á móti.

Margir hafa farið yfir margvíslegan ávinning sem samningurinn hefur leitt af sér og á fjölmörgum sviðum, sem sýnir það hversu mikilvægur hann er og þar af leiðandi líka flókinn. Mér finnst erfitt að dæma um það beinlínis hvað samningurinn hefur haft gott í för með sér og hvað vont, því að við getum ekki fullyrt að við hefðum ekki gert góða hluti án hans og við hefðum líka getað klúðrað ýmsu þrátt fyrir að hann væri ekki til staðar.

Spurningin er: Hvert er framhaldið? Ef maður tekur það aðeins saman hlýtur að þurfa að halda áfram að ræða samninginn og vinna í honum. Það sem margir hafa komið inn á hérna er hvar við höfum kannski brugðist mest og að við hefðum átt að fylgjast betur með málum frá upphafi, þá vil ég taka það fram að ekki er nóg að embættismenn fylgist með málum vegna þess að sumt af þessu er hrein pólitík. Pólitíkin þarf að fylgjast með og taka kannski afstöðu til mála miklu fyrr en gert er og vita hvað er um að vera. Skilgreina þarf framsal fullveldisins, hvernig það fer fram og hvar mörkin eru. Það er ljóst og margir hafa sagt það.

Mér finnst líka mjög mikilvæg spurning hvort hægt sé raunverulega að taka í neyðarhemilinn. Við þurfum að hugsa það og láta reyna á það, einhvern tíma þurfum við þess eflaust. Sérstaklega hlýtur það að verða erfitt þegar skrefin eru stutt sem tekin eru í hvert sinn og kannski er hvert skref ekki nógu stórt til að fólk staldri við. Hvenær og hvar er hægt að draga línu í sandinn? Þetta er mikil áskorun. Svo þurfum við að treysta dómskerfinu gagnvart samningnum. Við lentum í því nýverið að þar sem menn héldu að væri sameiginlegur skilningur reyndist ekki vera þegar dómurinn dæmdi. Þetta dregur aðeins úr tiltrú á samningnum og veldur smáerfiðleikum hjá mörgum. Hvenær erum við viss um að það, sem við héldum að við hefðum samið um, haldi?

Þetta er það sem ég vildi segja í stuttu máli og vil beina því til utanríkisráðherra, annarra og þingsins að haldið verði áfram að vinna í þessum málum og skilgreina samninginn svo átta megi sig betur á honum. Það er grundvallaratriðið.