150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

félög til almannaheilla.

181. mál
[16:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Frumvarpið sem við fjöllum um, frumvarp til laga um félög til almannaheilla, hefur verið í meðförum þingsins og tekið allt of langan tíma, a.m.k. fimm þing eru síðan það var lagt fram, og ánægjulegt að það sé komið fram núna aftur með þeim breytingum sem voru gerðar á því á síðasta þingi. Ég held að þær séu af hinu góða og ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að þetta sé eitthvað sem við getum sameinast um að sé mikilvægt að klára, enda unnið að tilstuðlan og áeggjan almannaheillasamtakanna. Við hljótum að vilja reyna að fara svolítið eftir því hvað samtökin sjálf segja. Vissulega hafa heyrst gagnrýnisraddir eins og alltaf. Eitt form hentar ekki endilega öllum. Þess vegna er uppleggið að þetta sé valkvætt.

Það sem mér finnst mikilvægast er í fyrsta lagi skilgreiningin á félagaforminu, almannaheillafélög. Ég tek undir að það treystir bara stoð þeirra gagnvart öllu því sem þau þurfa að takast á við í samfélaginu. Það er ekki gott, í ljósi þess hversu fjölmörg félög er um að ræða, að það sé í raun hægt að stofna félög án þess að regluverk sé staðar. Mér finnst sjálfri einna mikilvægast þetta með samskipti við ríki og sveitarfélög, að hægt sé að krefjast þess að almannaheillafélög sem þiggja styrki eða opinbert fé með rekstrarsamningum eða öðru slíku uppfylli ákvæði þessara laga og séu skráð sem slík, haldi bókhald og ársreikninga. Það er að mínu mati eitt það mikilvægasta í þessu frumvarpi og einnig umgjörðin utan um stjórn og fyrirkomulagið á henni. Það finnst mér líka vera eitt af því sem hefur verið með alls konar hætti í hinum ýmsu samtökum. Við settum í síðustu viku með hraði lög er varða peningaþvættismál og snúa einmitt að almannaheillasamtökum. Því miður er slíkt veruleiki sem við stöndum frammi fyrir. Ég held að með því að setja heildarlög utan um slík samtök séum við a.m.k. að gera okkar til þess að allt verði gagnsærra og sýnilegra.

Með þessu er kveðið á um að færa þurfi bókhald og vera með ársreikning sem er í samræmi við bókhaldslögin. Það þarf að birta þetta á vef eða opinberlega með viðeigandi hætti og það þarf að fá endurskoðanda eða slíkt fyrirtæki eða skoðunarmenn til að undirrita til þess að klára þennan rekstur. Það held ég að sé númer eitt, tvö og þrjú. Eins og ég segi hefur þetta verið með ýmsum hætti í gegnum tíðina. Það er líka mikilvægt, eins og ég sagði áðan, að allt opinbert fé sem rennur til slíkra samtaka komi skýrt fram.

Ég velti upp einu sem er í 3. mgr. 6. gr. þar sem kveðið er á um skyldu til að halda félagaskrá. Hvað þarf nauðsynlega að koma þar fram þar? Þar er félagaskrá nefnd sem nauðsynleg forsenda þess að hafa t.d. samskipti við félagsmenn til boðunar á félagsfundi. Ég myndi vilja að það yrði skoðað með tilliti til persónuverndarlaga hvernig því má haga. Það hafa verið uppi ýmis sjónarmið hvað það snertir að ekki megi senda út fjölpóst á hina ýmsu félaga í samtökum nema hafa fengið til þess tilskilin leyfi, þannig að ég mundi biðja nefndina um að það yrði kannað.

Það sem kannski vakti athygli, og ég hafði ekkert endilega pælt í, var í 9. gr., krafa sem hægt er að gera til ráðherra um að hlutast til um fund eða láta boða til fundar. Ef stjórn skirrist við að halda fund um eitthvert tiltekið mál getur félagsmaður eða félagsmenn óskað eftir því við ráðherra að hann láti boða til fundar á kostnað félagsins eða eftir atvikum leggi fyrir stjórn félagsins að halda þennan fund. Þetta var eitthvað sem ég hafði bara engan áttað mig á að væri leið ef uppi er stór ágreiningur og það ekki vilji einhverra í stjórn að halda fund.

Ráðherra svaraði því ágætlega sem fram kemur í 19. gr., m.a. um að framkvæmdastjóri sem er ráðinn sjái eðli máls samkvæmt um daglegan rekstur en ekki óvenjulegar eða meiri háttar ráðstafanir sem hann þarf að bera undir stjórn. Það sneri kannski fyrst og fremst að því að stjórnin þarf að hafa gott eftirlit með því hvernig bókhald félagsins er fært og hvernig fjármunum viðkomandi félags er ráðstafað, að það sé ævinlega í samræmi við tilgang félagsins. Þetta sneri m.a. að aldursmörkunum, þ.e. 18 ára aldri: Fólk sem er ekki orðið sjálfráða og fjárráða má ekki axla þá ábyrgð sem í því felst að vera í stjórn slíks félags. Það er hins vegar mjög mikilvægt, eins og við þekkjum bara af öllu starfi, að sjónarmið ungs fólks komist að. Þess vegna held ég að það sé góð hugmynd að þar sem það á við og fólki finnst það nauðsynlegt sé boðið upp á áheyrnarfulltrúa.

Ég þarf svo sem ekkert mikið að segja um þetta mál. Mér finnst þetta bara mjög gott og ég vona sannarlega að við náum að klára það í ljósi þess hvernig það ber að og í ljósi þess tíma sem það hefur fengið til að þroskast í meðförum þess hóps sem skilaði niðurstöðu sem hér er byggt á. Ég treysti því að þrátt fyrir þær ábendingar sem komu fram síðast sé hagurinn meiri í því að búa þannig um þessi félög að þetta mál verði samþykkt.