150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[16:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er ákveðin starfsemi sem þarf ekki leyfi. Nú kann ég þetta ekki allt saman utan bókar en það er alla vega ljóst að þeir sem stunda smálánastarfsemi þurfa ekki starfsleyfi. Eftirlitið er hjá Neytendastofu, ekki hjá Fjármálaeftirlitinu. Þess vegna segi ég að við þurfum sérlög í kringum þessa starfsemi þar sem tekið yrði á þeim málum og að eftirlitið yrði hjá Fjármálaeftirlitinu sem er með þekkingu og starfsmenn á því sviði, og auðvitað eigum við krefjast starfsleyfis. Ekki er tekið á okurvöxtum í frumvarpi mínu og okkar í Samfylkingunni en mér finnst sjálfsagt að við tökum það upp í nefndinni því að 50% vextir eru vissulega okurvextir. Ég væri sannarlega til í að við færum í þá og kæmum með breytingartillögu og lækkuðum vextina og leyfðum ekki slíka okurvexti.

Það er svolítið þungt í mér eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. ráðherra, af því að mér finnst með þessu frumvarpi verið að gefa smálánafyrirtækjum áframhaldandi veiðileyfi á fátækt fólk, ungt fólk sem stendur veikt fyrir. Það finnst mér algjörlega óásættanlegt. Við getum a.m.k. hunskast til að setja almennilegan ramma í kringum starfsemi slíkra félaga ef við á annað borð viljum leyfa þeim að starfa.