150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[17:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og er eiginlega sammála því að það vekji upp spurningar að Neytendastofa sé þarna eftirlitsaðili, að það skuli gilda önnur lögmál um þessa lánastarfsemi. Um hana á að gilda nákvæmlega það sama og um banka. Þar á enginn munur að vera á. Ég fór að reyna að finna út hvaðan þessir peningar komi, hver eigi þá og hvernig uppgjörið sé. Það eru engar upplýsingar til. Það er ekkert til um þetta og ég spyr: Hvernig vitum við að ekki sé verið t.d. að stunda peningaþvætti í þessu samhengi? Við vitum það ekki. Það er vonlaust að fá vita það. Þarna er einmitt grundvöllur fyrir peningaþvætti, af því að þetta eru svo lágar upphæðir. Það tekur enginn eftir þeim. Maður veit ekki hvaðan peningarnir koma, hver á þá, hver fær þá, ekkert. Og þeir eru í öðru landi.