150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

náttúruvernd.

65. mál
[17:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir andsvarið og undirtektirnar. Það væri auðvitað alveg frábært ef þetta yrði gert. Svo vil ég koma að öðru í þessu. Ég vona svo heitt og innilega að umræðan um þetta verði til þess að fólk fari að hugsa sig tvisvar um og hendi ekki sorpi á víðavangi, en hvernig eigum við að framfylgja því? Hvar náum við í sorplögguna? Hverjir geta bent á þetta? Hvernig náum við að sekta fyrir það? Þetta eru spurningar sem vakna, hvort hv. þingmaður hafi eitthvað hugsað um það. Síðan er hitt sem ég myndi líka vilja sjá í frumvarpinu, að gera það eiginlega að frumskyldu okkar að byrja á þeim yngstu, byrja í leikskóla, barnaskóla, hjá unglingum, hamra á umgengni við fólk. Við þurfum að virkja ungmennin og sjá til þess að þau læri umgengni við náttúruna. Þau eru orðin okkur fremri að mörgu leyti þannig að við eigum jafnvel að fylgja því eftir og koma því inn í alla dagskrárliði hvernig við viljum að gengið sé um náttúruna. Ég spyr hvort hann sé ekki sammála því að við eigum að sjá til þess að því sé framfylgt að allir fái upplýsingar um þetta og að við byrjum eins snemma og hægt er.