150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

náttúruvernd.

65. mál
[18:04]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Eymarsdóttur fyrir þetta innlegg. Ég held að það sé ekki óþarfi að setja lög þótt við getum alveg verið sammála um að ekki sé alltaf hægt að vera á vaktinni fyrir viðkomandi atriði. Ég velti fyrir mér hvort við eigum þá ekki að hafa hraðasektir á Suðurstrandarvegi vegna þess að lögreglan á svo erfitt með að vera þar. Maður getur spurt sig alls konar svona furðulegra spurninga. Ég held að þetta sé bara viðbót inn í lög um náttúruvernd á Íslandi. Við höfum séð t.d. í utanvegaakstri að fólk skemmir fyrir hundruð þúsunda. Það er tjón, eins og í svo mörgu, sem verður aldrei bætt með peningum. Þó að sorp sé kannski ekki alveg á sama stigi og það held ég að mjög mikilvægt sé að þeir sem eru þó gripnir við þá iðju að skilja sorp eftir á víðavangi taki þátt í kostnaðinum sem hlýst af því að hreinsa það, vegna þess að samfélagið er alltaf að því. Ég minntist á fólkið í sveitinni áðan og það tekur til eftir fleiri en sjálft sig af því að það eru alltaf einhverjir sem skilja eftir sorp. Svo verða auðvitað slys á hálendinu eins og annars staðar þar sem fólk gleymir sorpi eða það fýkur eða eitthvað slíkt. Það er mikilvægt að þetta ákvæði kom inn í þennan stóra lagabálk um náttúruvernd á Íslandi. Grunninntakið hjá öllum sem hafa tekið þátt í þessari stuttu umræðu hérna er samt að við þurfum sjálf að bera ábyrgð á því hvernig við göngum um landið okkar.