150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

sértæk þjónustueining fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma.

28. mál
[18:26]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni Willum Þór Þórssyni fyrir að mæla fyrir þessari tillögu sem er þörf og tímabær og sem ég styð heils hugar. Hún gengur út á að ráðherra skipi starfshóp til að vega og meta þessa umgjörð og hvort við getum bætt hana að einhverju leyti í ljósi aðstæðna á Íslandi. Hv. þingmaður benti á viðlíka þjónustu í nágrannalöndunum sem væri með mismunandi yfirbragði, allt frá því að vera einu opinberu sjúkrahúsin yfir í að vera sérstakrar miðstöðvar. Mig langar aðeins að heyra í hv. þingmanni varðandi þetta í ljósi þess að hér búa 330.000–340.000 manneskjur og það kemur auðvitað upp að einstaklingar veikjast og þurfa stuðning, ganga kannski á milli Heródesar og Pílatusar áður en greining er staðfest og þá tekur við annað ferli sem oft er líka erfitt. Er það skoðun hv. þingmanns að stefna beri að því að hér verði opnuð sérstök stofnun sem sér um þetta eða er eðlilegt að tengja þetta einhverri af okkar ágætu heilbrigðisstofnunum sem við eigum í landinu? Það er nærtækast að horfa til Landspítala í því efni. Á þessu svæði er íbúafjöldinn mestur.