150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja.

30. mál
[13:48]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, vera á sínum stað. Einhvern tímann sagði vel gefinn maður að ef til væru geimverur og þær horfðu til jarðarinnar hefðu þær engan sérstakan áhuga á manninum sem einstaklingi eða dýrategund. Þær myndu hafa áhuga á borgum af því að þær bera yfirleitt miklu fleiri einkenni háþróaðs vitsmunalífs en hver og einn einstaklingur. Borgir breytast og þróast og ég man að þegar ég kom fyrst til Reykjavíkur sem barn voru teppabúðir og málningarbúðir á Laugaveginum og þegar ég kom sem unglingur flýtti ég mér fram hjá Hverfisgötunni vegna þess að hún var stórhættuleg, fannst manni, hún leit illa út og var niðurnídd. Ég held að margt af því sem Reykjavíkurborg hefur verið að gera til þess að færa borgina inn í nútímann hafi byggt góðan grunn undir það að mjög margir geti rekið blómleg fyrirtæki. Gleymum því ekki að krárnar og veitingahúsin og lundabúðirnar eru líka smáfyrirtæki sem harðduglegt fólk stendur kannski á bak við og er að brauðfæða sig og sína fjölskyldu og starfsmenn með. Ég held að það sé auðvitað bara kostur. Ég myndi ekki vilja koma til London og detta inn í sviðsmynd bóka Dickens. Það er bara ágætt að borgirnar breytist og taki framförum og ég held að það sé að gerast hér.