150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

sveitarstjórnarlög.

49. mál
[14:00]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Stutt og einfalt en gríðarlega mikilvægt mál. Þetta frumvarp hefur verið lagt fram nokkrum sinnum, á 143., 146., 148., og 149. löggjafarþingi. Markmið frumvarpsins er að skýra og auka getu sveitarfélaga til þess að boða til borgarafundar annars vegar og til þess að halda íbúakosningar um einstök málefni hins vegar. Í 1. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að ef minnst 10% af þeim sem eru með kosningarrétt í sveitarfélagi óski eftir borgarafundi skuli sveitarstjórn verða við því svo fljótt sem auðið er. Í 2. mgr. 108. gr. er kveðið á um að 20% kosningarbærra íbúa í sveitarfélagi geti óskað eftir íbúakosningu um einstök málefni. Þá er sveitarfélagi skylt að verða við þeirri ósk eigi síðar en ári eftir að óskin berst. Hlutfallið er lágmarkshlutfall samkvæmt lögum en heimilt er að ákveða hærra hlutfall í samþykkt í stjórn sveitarfélags, þó aldrei hærra en þriðjung þeirra sem hafa kosningarrétt.

Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er hins vegar lagt til að sveitarstjórn sé heimilt að lækka það hlutfall íbúa sveitarfélags með kosningarrétt sem þarf til þess að boðað verði til borgarafundar. Flutningsmenn sjá ekki ástæðu til að takmarka sérstaklega rétt sveitarfélaga til að liðka fyrir rétti íbúa til að boða til borgarafundar. Því er lagt til að við málsgreinina bætist ákvæði um að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða lægra hlutfall í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að lækka hlutfall íbúa sveitarfélags með kosningarrétt sem þarf til að knýja fram íbúakosningu um einstök málefni en lögin kveða á um að hlutfallið skuli vera 20% að lágmarki. Sveitarstjórnum er þó veitt heimild til að hækka það hlutfall, sem er ansi hátt til að byrja með, þótt það megi aldrei vera hærra en sem nemur þriðjungi íbúa með kosningarrétt.

Í athugasemdum við 108. gr. frumvarps sem varð að sveitarstjórnarlögum kemur fram að ekkert banni sveitarstjórn að verða við ósk um íbúakosningar jafnvel þótt lægra hlutfall íbúa leggi hana fram. Sveitarstjórnir hafa því í sjálfu sér heimild til að verða við ósk þótt færri undirskriftir berist en sem nemur 20% kosningarbærra manna í samfélaginu. Af hverju þarf þá þessa breytingu? Jú, slík ákvörðun er háð geðþótta sveitarstjórnar hverju sinni og gæti hún því t.d. samþykkt eina ósk en hafnað annarri, jafnvel þótt sami fjöldi undirskrifta lægi að baki hvorri um sig og hvorug væri háð þeim takmörkunum sem koma fram í 3. mgr. 108. gr. laganna um að þær uppfylli báðar lög og reglugerðir að öðru leyti. Einnig yrði afar matskennt hvernig slíkar óskir yrðu afgreiddar sem myndi valda undirskriftasöfnurum óvissu. Þeir kynnu t.d. að efast um að geta safnað undirskriftum 20% íbúa með kosningarrétt í sveitarfélaginu sökum þess að sveitarfélagið er strjálbýlt eða samanstendur af nokkrum dreifðum byggðakjörnum eða í rauninni bara mjög fjölmennt. Það er mjög erfitt að safna undirskriftum, það er bara langt frá því að vera auðvelt, 20% lágmark er mjög hár þröskuldur. Við slíkar aðstæður gætu undirskriftasafnarar í raun ekki vitað fyrir fram hvernig þeir ættu að haga undirskriftasöfnuninni sjálfri og yrði slík óvissa sérstaklega óþægileg ef fyrirséð væri að ákvæði laga og reglna torvelduðu einhvern hluta söfnunarinnar að mati undirskriftasafnara. Mikilvægt er að aðilar sem hyggjast safna undirskriftum viti fyrir fram hvernig söfnuninni skuli háttað og hvaða afleiðingar það hefur að ná tilteknum fjölda, jafnvel þó að hann fari ekki yfir 20% mörkin. Varðar þetta ekki síst 4. mgr. 108. gr. laganna þar sem kveðið er á um reglugerðarheimild til nánari útfærslu á því hvernig undirskriftasöfnun skuli háttað.

Við skulum nefnilega átta okkur á því að það eru ekki alltaf lögfræðingar sem safna undirskriftum. Að lesa sig í gegnum allar reglugerðir og lög o.s.frv. er langt frá því að vera sjálfsagt og einfalt. Það er ákveðin upplýsingaskylda sem maður myndi halda að ráðuneyti og sveitarfélög þyrftu að uppfylla og það eru alveg dæmi um þetta. Í Reykjanesbæ var undirskriftasöfnun um áframhaldandi stóriðju í Helguvík þar sem lágmarkið náðist, það náðist um fjórðungur, undirskriftir um 25% kosningabærra manna, en samt var ekki haldin íbúakosning af því að hún var á skjön við einhverjar reglugerðir o.s.frv. Þeir sem voru að safna undirskriftunum höfðu samt komið til bæjarstjórnar til að byrja með og leitað sér leiðbeininga, hvort það væri ekki eðlilegt að fara fram með þessum hætti eða hinum, en bæjarstjórnin benti ekki á neina augljósa reglugerðar- eða lagagalla við framkvæmd undirskriftarsöfnunarinnar. Hún nýtti sér það síðan eftir á og sagði: Nei, það á ekki að gera þetta svona. Þó hefur hún heimild til að túlka undirskriftasöfnun á þann hátt, þótt hlutfallið sé undir 20%, að verða skuli við henni.

Í ljósi þessa er lagt til að í stað orðanna „hærra hlutfall“ í 2. málslið 2. mgr. 108. gr. laganna komi orðin „annað hlutfall“. Með þeirri breytingu verður lagaumhverfi undirskriftasafnana og hugsanlegra íbúakosninga í kjölfarið bæði víðtækara og skýrara, kjósi stjórn sveitarfélags að lækka hlutfallið. Einnig er það mat flutningsmanna að slíkt orðalag sé frekar til þess fallið að gefa lesendum laganna til kynna að 20% markið sé sjálfgefið hlutfall en ekki eiginlegt lágmark. Það býr til ákveðna lýðræðisumhverfismöguleika í sveitarfélögunum, bara um ákvörðun þeirra, t.d. þegar kemur að kosningum. Þetta er eitthvað sem við viljum laga til á nýju kjörtímabili, því hvernig flokkarnir leggja upp íbúasamráðið með tilliti til þessa möguleika. Það er mikilvægt að möguleikar sveitarstjórnarinnar til að notast við íbúakosningar við ákvarðanatöku í einstökum málum séu alveg ótvíræðir og skýrir öllum sem lesa lögin, hvort sem er um að ræða stjórn sveitarfélags eða íbúa þess, því að íbúar þess eru ekki allir lögfræðingar og eiga að sjálfsögðu ekki að þurfa að vera það.

Sveitarfélög bera sjálf kostnað af því að halda íbúakosningar og borgarafundi og er því ekki gert ráð fyrir því að breytingin leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð, bara svona til að hafa það á hreinu.

Í stærra samhengi málsins kom hingað inn á Alþingi í þessari viku áætlun um markmið í málefnum sveitarfélaga. Þar er kveðið á t.d. um aukið lýðræði. Það er ákveðið markmið um aukna lýðræðisvæðingu. Þetta mál er tvímælalaust eitthvað sem þarf að taka tillit til þar og mér finnst mjög mikilvægt að það sé tekin sérstök ákvörðun um þátttökuhlutfallið óháð því hvað er síðan gert í stefnumörkun varðandi sveitarfélögin, því þetta eina atriði um að nærsamfélagið, sveitarfélögin sjálf og íbúar þeirra geti haft áhrif á hvert sé vænt þátttökuhlutfall þeirra þegar kemur að beinum lýðræðismálefnum, t.d. eins og að efna til borgarafundar eða að taka íbúakosningar alla leið, skiptir miklu máli. Það eru að sjálfsögðu fleiri atriði í ferlinu sem varða samtalið sem slíkt. En að hafa þennan málskotsrétt og frumkvæðisrétt er gríðarlega mikið aðhaldstæki fyrir íbúa sveitarfélagsins, sérstaklega af því að við erum ekki á þeim stað í sveitarfélögunum að það sé boðað til kosninga á miðju kjörtímabili, það er ekkert í boði. Þeim mun mikilvægara er, ef áhuga íbúa á lýðræðisþátttöku er ekki sinnt, að betri grein sé gerð fyrir möguleikum íbúanna í lögum frá Alþingi.

Flutningsmenn eru Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrsti flutningsmaður, sem er því miður ekki viðstaddur eins og er þannig að ég leysi hann af hólmi sem annar flutningsmaður, og Halldóra Mogensen, Jón Þór Jónsson, Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Ég vonast til þess, sérstaklega í kjölfar almennrar markmiðasetningar og meiri lýðræðiskröfu í samfélaginu sem fylgdi með t.d. kröfum um nýja stjórnarskrá, um málskotsréttinn þar, um ákveðinn málskotsrétt á þingi í staðinn fyrir málþófsrétt, að við förum aðeins að gíra okkur í rétta átt hvað þetta varðar. Þarna gefum við íbúum sveitarfélagsins tækifæri til að stilla þetta aðeins af sjálfir ef búið er að ákveða eitthvert hlutfall í samþykktum sveitarstjórnar. Ef þetta er samþykkt þá geta íbúar, ef þeir ná 20%, kallað eftir undirskriftasöfnun ef sveitarstjórn ætlar að hækka hámarkið. Þeir geta líka kallað til íbúakosninga um að lækka hámarkið, lækka það úr 20% eða hvaða hlutfalli sem það er í. Núna eru flest sveitarfélög með það í 20% þannig að það þarf 20% til að kalla á að lækka það. Við getum rakið nokkur dæmi um það hvernig undirskriftasafnanir hafa gengið. Nýjasta málið er væntanlega orkupakkinn þar sem ekki náðist 10% markið sem sett er í frumvarpi stjórnlagaráðs. 10% er ansi mikið. 20% er gríðarlega mikið. Það var dæmi í Árborg nýlega þar sem það munaði rosalega litlu að það næðust 20%. Það er dæmið úr Reykjanesbæ þar sem náðist fjórðungur en samt gerðist ekkert. Þetta eru tvímælalaust mál sem við þurfum að taka á og gera vel og gera betur.

Ég vonast til að málið hljóti góða afgreiðslu hérna á þingi, loksins, því að þetta er í fimmta skipti sem það er lagt fram. Mér finnst þetta algerlega augljóst mál. Með þessu sleppir valdið svolítið tökunum. Okkur veitir ekki af því ef okkur er alvara með að auka traust á stjórnkerfinu.