150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

sveitarstjórnarlög.

49. mál
[14:31]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M):

Herra forseti. Ég vil þakka frummælanda og flutningsmönnum fyrir þetta frumvarp sem þeir leggja hér fram og vil nú bara koma augnablik hingað upp til að lýsa því að ég deili áhuga þeirra á því að veita íbúum fleiri tækifæri til að hafa bein áhrif. Eins og frummælandi talaði einmitt um er t.d. ákveðið aðhaldshlutverk sem það getur gegnt ef það er ekki mjög erfitt að kalla fram kosningu. Það kallar á meiri vandvirkni þeirra sem ráða.

Það hefur heilmikið verið hugsað um þetta víðar en hér og það er áhugavert að lesa hugmyndir sem kallaðar eru „wisdom of the crowd“ eða hjarðviska. Samansöfnuð viska fólks úr ólíkum áttum gefur oftast nær mjög góða niðurstöðu, kannski bestu niðurstöðuna. Það er mjög áhugavert, að ég tel, að við förum að stíga þessi skref. Þetta er, að mér sýnist, varfærið skref og ekki hættulegt og ég vonast til þess að það hljóti þinglega meðferð og þá koma fram athugasemdir og mótrök, ef eru. Ég legg til að þetta fari hér í gegn.